Þingfundi slitið eftir fimm mínútur

Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, var heitt í hamsi í …
Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, var heitt í hamsi í upphafi þingfundar. Skjáskot/Alþingi

Þingfundur sem hófst á Alþingi klukkan hálfellefu í morgun entist ekki í nema fimm mínútur áður en honum var slitið af Steingrími J. Sigfússyni, forseta þingsins. Áður hafði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýnt að of margir þingmenn væru í salnum og að slíkt væri brot á sóttvarnalögum. Var hann auðsjáanlega pirraður yfir stöðunni.

Jón Þór kom í pontu undir liðnum fundarstjórn forseta og hóf ræðu sína á að vitna í sóttvarnalög. Í þeim stæði að það væri lögbundin skylda hvers einstaklings að gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra.

Næst nefndi Jón Þór að samkvæmt reglum um samkomubann mættu aðeins 20 þingmenn vera í salnum á sama tíma. Hann hóf næst að telja þingmenn og taldi 26 þingmenn og það voru „bara þeir sem ég sé“ sagði Jón Þór.

Hann var gáttaður á því að því að þurfa benda forseta Alþingis á að hann væri ekki að haga sér í samræmi við yfirlýsingar sem gerðar hafa verið í samfélaginu um að virða samkomubann. Jón Þór sagði að karpað hefði verið við forseta í allan gærdag um hvaða mál færu á dagskrá í dag.

„Hann veit það að ef hann er að fara að setja mál á dagskrá sem ágreiningur er um þá að sjálfsögðu mætum við þingmenn hingað og virðum lýðræðið. Samt ákvað hann að halda þessu til streitu, að halda þingfundinn svona og hafa dagskrána svona, hann hefur dagskrárvaldið,“ sagði Jón Þór en var alls ekki hættur:

„Þetta er ólíðandi að bjóða starfsfólki upp á þetta, sem er komið í meiri sýkingarhættu vegna þessa. Það er ólíðandi að bjóða þinginu upp á þetta og það er ólíðandi að bjóða lýðræðinu upp á þetta. Forseti þarf að afmá þessa dagskrá af málum sem ágreiningur er um og virða sóttvarnalög.“

Steingrímur stóð því næst upp og sleit fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert