Flugvél Icelandair sem flytur nú 16 tonn af lækningabúnaði frá Kína er væntanleg til landsins um klukkan hálffjögur síðdegis. Er þetta önnur vélin sem fer til Kína að sækja slíkar vörur á rúmlega viku. Flugið til baka tekur um 12 klukkustundir og með stoppi í Kína er því um að ræða samtals um 30 klukkustunda ferðalag.
Vélin lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli í gærmorgun með 12 manna áhöfn. Eru sex flugmenn um borð, fjórir hlaðmenn og tveir flugvirkjar. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að þar sem um langt flug sé að ræða fari tvær áhafnir flugmanna með, en hvíldaraðstaða er í vélinni. Hún segir að stoppað hafi verið í Kína í um sex klukkustundir meðan farminum var hlaðið um borð í vélina. Allt hafi gengið að óskum og vélin svo haldið af stað til baka.
Um er að ræða leiguflug á vegum Icelandair Cargo og Loftleiða Icelandic í samstarfi við aðila í heilbrigðisgeiranum á Íslandi og DB Schenker, en það er sambærilegt fyrirkomulag og var fyrir viku þegar flugvél frá félaginu sótti 17 tonn af búnaði.
Eftir að búnaðurinn kom til landsins í síðustu viku kom fram að hann uppfyllti allar kröfur sem til slíks búnaðar eru gerðar, nema til gríma. Við nánari skoðun kom hins vegar í ljós að þær uppfylla gæðakröfur ef farið er eftir öllum þeim leiðbeiningum sem fylgja, þvert á það sem talið var í fyrstu.
Þegar þetta er skrifað er vél Icelandair rétt ókomin inn í lofthelgi Finnlands, en hún hefur flogið yfir lofthelgi Rússlands, Mongólíu og Kína á leiðinni hingað til.