„Þetta kom okkur óvart þar sem við vorum ekki með hugann við kynsjúkdóma síðustu vikur,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag þegar hann var spurður út í þá aukningu sem hefur mælst í kynsjúkdómasmiti í janúar, febrúar og einnig í marsmánuði á þessu ári.
Aukning kemur mönnum spánskt fyrir sjónir, en frá 15. mars hefur verið í gildi samkomubann á Íslandi og fólki verið sagt að halda tveggja metra millibili sín á milli.
„Kynsjúkdómar smitast bara á einn veg. Þetta þýðir bara að einstaklingar eru ekki að passa sig í kynlífi, eins og við höfum margbent á á undanförnu ári. Vissulega er það áhyggjuefni að það er aukning það sem af er ári á sárasótt og lekanda líka, klamydían og HIV-ið eru á svipuðu róli. En við eigum bara eftir að skoða þetta betur,“ sagði Þórólfur.
Eins og greint var frá á mbl.is í morgun hefur mesti vöxturinn verið í sárasóttartilfellum (sýfilis), en á þeim hefur orðið „umtalsverð aukning“. Árið 2019 voru tilfellin samtals orðin tíu í lok marsmánaðar en í ár eru þau orðin fleiri en 20. Árin 2015 og 2018 urðu tilfellin vart fleiri en 20 allt árið.
Hátt hlutfall af sárasóttartilfellunum er komið frá útlöndum en greinist hér, eins og má ráða af þeirri staðreynd að helmingur allra tilfellanna greinist hjá einstaklingum með erlent ríkisfang. Sárasóttarsjúklingar eru síðan 92% karlmenn.