Sofandi er látið var reka og bátur strandaði

TF-EIR bjargaði skipverjum.
TF-EIR bjargaði skipverjum.

Niðurstaða sjóslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna strands Digraness NS 124 við sunnanvert Langanes í september í fyrra er að orsök slyssins megi rekja til þess að stjórnandi bátsins hafi verið sofandi.

Vakt hafi ekki verið tryggð meðan látið var reka nálægt landi. Tveir menn voru um borð í bátnum, sem var tólf metra plastbátur, og var þeim bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Í skýrslu Rannsóknanefndar kemur fram að atvik hafi verið með þeim hætti að Digranes hafi farið frá Bakkafirði að morgni 9. september og fyrst verið við veiðar út af Langanesi. Vegna lélegra aflabragða og myrkurs hafi verið ákveðið að sigla inn með nesinu og láta reka til morguns. Báturinn hafi verið á reki frá því um kl. 21:30 þar til hann strandaði um miðnætti.

Við rannsókn kom fram að rekið var ekki í samræmi við það sem skipstjóri hafði reiknað út, en þegar báturinn var settur á rek var hann um 0,6 sjómílur frá landi og á um 20 faðma dýpi að talið var. Þegar skipverjarnir fóru að sofa var aðalvél í gangi og öll helstu siglingatæki. Í tækjunum var aðvörunarbúnaður en hann var ekki notaður, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert