Þriðja flugið til Kína á morgun

Icelandair cargo fer í þriðja flug sitt á innan við …
Icelandair cargo fer í þriðja flug sitt á innan við 10 dögum til Kína á morgun til að sækja lækningavörur til að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar. Ljósmynd/Aðsend

Þriðja flug Icelandair til Shanghæ í Kína, til að sækja lækningabúnað í tengslum við baráttuna við kórónuveiruna, verður farið í fyrramálið og er áætluð heimkoma eftir hádegi á sunnudaginn. Þetta staðfesti Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, við mbl.is. 

Áður hafði verið í skoðun að fara í þriðja flugið, en ekki lá fyrir staðfesting fyrr en núna eftir hádegi.

Ásdís segir að magn búnaðar sem flutt verði í þetta skiptið liggi ekki alveg fyrir, en hún geri ráð fyrir að það verði svipað og í fyrri flugunum tveimur, en þar voru 17 og 16 tonn flutt. Seinna flugið er þessa stundina á flugi yfir Svíþjóð á leið til landsins og er áætluð lending í Keflavík klukkan hálffjögur síðdegis.

Eins og í hin tvö skiptin er um er að ræða leiguflug á veg­um Icelanda­ir Cargo og Loft­leiða Icelandic í sam­starfi við aðila í heil­brigðis­geir­an­um á Íslandi og DB Schen­ker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert