Andlát: Páll Sigurðsson

Páll Sigurðsson
Páll Sigurðsson

Látinn er í Reykjavík á 95. aldursári Páll Sigurðsson læknir og fv. ráðuneytisstjóri. Páll fæddist 9. nóvember 1925 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Jónsson sjómaður (1894-1959) og Ingibjörg Pálsdóttir húsmóðir (1900-1975), bæði frá Eystri-Loftstöðum í Gaulverjabæ.

Páll lauk stúdentsprófi frá MR 1946, læknaprófi frá HÍ 1952 og sérnámi í bæklunarskurðlækningum í Svíþjóð 1956. Hann varð þá sérfræðingur á slysavarðstofunni og á Landakoti auk þess sem hann rak læknastofu í Reykjavík um árabil. Hann var tryggingayfirlæknir 1960-70.

Veturinn 1969-70 stundaði Páll nám í lýðheilsufræðum við Bristolháskóla og lauk þaðan DPH-prófi vorið 1970.

Páll var skipaður fyrsti ráðuneytisstjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 1970 og gegndi því embætti til starfsloka 1995. Veturinn 1982-83 var Páll ráðgjafi hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Kaupmannahöfn og 1973-80 var hann yfirlæknir hjá Vinnu- og dvalarheimili Sjálfsbjargar, með leyfi ráðherra, svo unnt yrði að opna stofnunina.

Páll gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann sat í stjórn Læknafélags Reykjavíkur 1958-60, Læknafélagsins Eirar 1960-64, Gigtarfélags Íslands 1963-64, var formaður Skurðlæknafélags Íslands 1961-64. Hann var borgarfulltrúi Alþýðuflokksins í Reykjavík 1966-70 og sat í ýmsum nefndum hjá borginni 1962-1970. Hann var formaður stjórnarnefndar Ríkisspítala 1973-83, formaður Daggjaldanefndar sjúkrahúsa 1972-92, í yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóð 1973-80, stjórnarformaður Íslenskrar endurtryggingar 1973-93, í norrænu embættismannanefndinni um félags- og heilbrigðismál 1971-95, í Umferðarráði 1987-90, einn stofnenda Rotaryklúbbsins Reykjavík-Austurbær 1963, ritari þar 1964-65 og forseti 1981-82 og valinn heiðursfélagi klúbbsins á 50 ára afmæli hans 2013. Þá sat Páll í og var formaður fjölda opinberra nefnda um heilbrigðis- og almannatryggingamál. Hann skrifaði fjölda greina um heilbrigðis-og almannatryggingamál í íslensk og erlend blöð og tímarit og hafði umsjón með ritum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

Eftir starfslok gaf Páll út bókina Heilsu og velferð, þætti úr sögu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 1970-1995. Hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu 1978 og var Paul Harris Fellow frá 1988. Þá var hann kjörinn heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands 2004.

Páll kvæntist 19. ágúst 1949 Guðrúnu Jónsdóttur geðlækni f. 1926, sem lést 27. nóvember sl. Börn þeirra eru tvíburarnir Jónína tannlæknir og Ingibjörg lyfjafræðingur f. 1949. Dögg hæstaréttarlögmaður f. 1956 og tvíburarnir dr. Sigurður Páll geðlæknir og Jón Rúnar hæstaréttarlögmaður f. 1960. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin eru 17.

Útför Páls verður 24. apríl nk. kl. 13. Streymt verður frá athöfninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert