Stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og fyrrverandi fulltrúar í stjórn Eyþings neita því að stjórn Eyþings hafi sakað Pétur Þór Jónasson, fv. framkvæmdastjóra Eyþings, um kynferðislega áreitni á vinnustað heldur hafi stjórnin þurft að taka til meðferðar kvörtun undirmanns vegna óviðeigandi og ófaglegra samskipta. Orðin kynferðisleg áreitni séu frá honum sjálfum komin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SSNE.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Pétur Þór frá starfslokum sínum hjá Eyþingi og eftirmálum sem orðið hafa, m.a. dómsátt í máli hans þar sem hann fékk bætur til viðbótar launum á uppsagnartíma og í veikindum. Segja stjórnarmennirnir að Eyþing hafi lengi glímt við stjórnunar- og rekstrarvanda og um það hafi verið fjallað á mörgum fundum og úttekt óháðra aðila hafi staðfest það. „Ásakanir Péturs Þórs um upplognar sakir sem átyllu til brottrekstrar eiga sér enga stoð í veruleikanum,“ segir þar.
Fram kemur í yfirlýsingunni að staðhæfingar Péturs Þórs um að sátt hafi tekist milli hans og undirmanns séu ekki á rökum reistar og því hafnað að Eyþing hafi óskað eftir trúnaði um dómsáttina.
„Af okkar hálfu lauk málinu með sáttinni 27. janúar 2020 og í framhaldinu var það afgreitt af öllum 13 aðildarsveitarfélögunum og teljum við því ekki ástæðu til frekari umræðu um það,“ segja stjórnarmennirnir. Hilda Jana Gísladóttir, formaður Eyþings og SSNE, vísar í yfirlýsinguna og kýs að tjá sig ekki frekar um málið.