Ræktun iðnaðarhamps heimil eftir reglugerðarbreytingu

Heimildin er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að …
Heimildin er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2%.

Lyfjastofnun hefur fengið undanþáguheimild sem gerir innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur með breytingu á reglugerð veitt stofnuninni slíka undanþágu. 

„Heimildin er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2%,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Í Danmörku og Svíþjóð er heimilt að rækta iðnaðarhamp á tilteknum yrkjum sem innihalda minna en 0,2% af THC. Í Noregi er slíkt til skoðunar. Frá árinu 2000 hefur ræktun á iðnaðarhampi verið hluti af styrkjakerfi ESB innan Evrópusambandsins.   

„Ávana- og fíkniefnalöggjöfin hefur skýr markmið og tilgang sem fellur augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Það gerir sú ræktun sem hér um ræðir hins vegar ekki, að því gefnu að hún stangist ekki á við inntak og markmið þessara sömu laga.“ Þetta er haft eftir Svandísi Svarsdóttur heilbrigðisráðherra.  

Iðnaðarhampur er ein tegund kannabiss en planta með því heiti er ýmsum kunn sem vímugjafi. Vímuvaldurinn í kannabis er virka innihaldsefnið THC sem auk þess að valda vímu er ávanabindandi. Iðnaðarhampur, þ.e. þau yrki kannabisplöntunnar sem ræktuð eru til iðnaðarframleiðslu, er aftur á móti frábrugðinn hefðbundnum yrkjum plöntunnar þar sem hann inniheldur lítið sem ekkert af THC.

Fyrirhugað er að skipa starfshóp um málið. Hann hefur það hlutverk meðal annars að skýra lagagrundvöllinn og ábyrgð þeirra stofnana sem þurfa að koma að framkvæmdinni þegar kemur að leyfisveitingum og eftirliti með ræktun iðnaðarhamps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert