Guðni Einarsson
Skiptar skoðanir eru á meðal hjúkrunarfræðinga um nýjan kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) við samninganefnd ríkisins. Samkvæmt heimildum kemur óánægjan m.a. fram á lokuðu spjallsvæði hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, segir að tæplega 700 félagsmenn hafi fylgst með fyrsta kynningarfundinum um samninginn á fimmtudag. Það var fjarfundur á lokuðu vefsvæði Fíh. Þrír kynningarfundir eru auglýstir í næstu viku. Rafræn atkvæðagreiðsla hefst á miðvikudag og stendur í viku. Samningurinn nær til um 2.800 hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg segir að málið sé tvíþætt og geti virst flókið við fyrstu sýn. Annars vegar er kjarasamningurinn sem snýr að hjúkrunarfræðingum og hins vegar stytting vinnutíma fyrir dagvinnu og vaktavinnu. Að henni koma einnig ASÍ, BHM og BSRB auk Fíh. „Þetta er mjög flókið og heilmikið að fara í gegnum það með fólkinu,“ segir Guðbjörg í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir að óánægja með samninginn hafi einkum heyrst fyrst eftir að gögn um hann voru birt á lokuðum vef félagsins sl. miðvikudag. „Það var greinilegt að fólkið þurfti að fá kynningu á þessum gögnum. Þarna gætti mikils misskilnings,“ segir Guðbjörg. Hún segir að á fyrsta kynningarfundinum hafi fólk fengið útskýringar og svör og margir skipt um skoðun eftir það.