„Við höfum öll fokið í þessari björgunarsveit – tekið byltuna. Samt kunnum við, eins og flestir Kjalnesingar, að hlusta eftir hviðunni og henda okkur niður áður en hún skellur á okkur. Það venst ekki vel að fjúka. Ég sækist alla vega ekki eftir því. Þegar ég hætti að geta hent mér niður hætti ég að fara í útköll – eða alla vega út úr bílnum.“
Þetta segir Anna Lyck Filbert, félagi í Björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Hún rifjar meðal annars upp aftakaverðrið á Kjalarnesi 14. febrúar síðastliðinn.
„Ég hef búið hérna frá 1993 og þetta er með því allra versta sem ég hef upplifað og örugglega mesta tjónið. Fyrir utan þakið sem fauk brotnuðu margar rúður, bæði í húsum og bílum, og það flaug allt mögulegt um hverfið. Það er óvenjulegt enda er fólk almennt mjög meðvitað hérna og grípur því til viðeigandi ráðstafana þegar spáin er slæm, svo sem að taka inn eða binda niður hluti sem geta fokið. Eins og landsmenn þekkja þá erum við ýmsu vön hérna á Kjalarnesi þegar kemur að hvassviðri og kippum okkur ekki upp við gular og jafnvel appelsínugular veðurviðvaranir enda þótt við sofnum auðvitað aldrei á verðinum. Hér eru 35 metrar á sekúndu í hviðum ekkert tiltökumál og valda alla jafna ekki tjóni, meðan við erum oft farin að horfa upp á tjón í bænum áður en vindhraði nær 35 metrum á sekúndu. Þennan dag fór vindhraði yfir 60 metra á sekúndu og það var svo erilsamt að við þurftum að fá aðstoð úr bænum til að anna verkefnum. Það er mjög óvenjulegt.“
Anna fer í um 120 útköll á ári og viðurkennir, þegar á hana er gengið, að það sé með því meira á landinu. „Annars getur fjöldinn verið afstæður, útköllin geta verið svo misjöfn. Þau geta staðið í hálftíma og allt upp í marga daga, eins og leitin að ungu konunni um páskana. Það telst vera eitt útkall. Svo geta farið sex til átta klukkutímar í útkall vegna bíls sem situr fastur; það veltur á fjarlægðinni. Útköllin eru líka misjöfn er varðar álag, sum mjög líkamlega krefjandi en önnur andlega erfið.“
Þeir sem til þekkja vita að annar bíll Björgunarsveitarinnar Kjalar er alla jafna á planinu fyrir utan heimili Önnu. Þýðir það ekki að hún er ávallt reiðubúin að bregðast við útkalli?
„Það má draga þá ályktun,“ segir hún brosandi. „Ég fer eiginlega alltaf þegar eftir því er leitað, þegar ég á þess mögulega kost. Ég færi auðvitað ekki úr miðri jarðarför. Í þessu sambandi skiptir máli að ég vinn ekki utan heimilisins og þarf fyrir vikið ekki að rjúka úr vinnu. Komist ég ekki þá er stutt fyrir næsta mann að nálgast bílinn. Það er ekki pláss fyrir nema annan bílinn okkar hér í bækistöðinni og einhvers staðar þarf hinn að vera. Staðsetningin snýr líka að vettvangsliðaútköllum, þar sem við erum boðuð í slys og bráðaveikindi og stutt viðbragð skiptir máli.“
Ítarlega er rætt við Önnu Lyck Filbert í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.