Á hverju eigum við þá að lifa?

Svanbjörg H. Einarsdóttir sér ekki fram á vinnu á næstunni …
Svanbjörg H. Einarsdóttir sér ekki fram á vinnu á næstunni og er á atvinnuleysisbótum. Hún segir leiðsögumenn nú örvæntingarfulla, enda mjög fáir þeirra fastráðnir. mbl.is/Ásdís

Fjölmargar stéttir hafa orðið illa úti vegna kórónuveirunnar og eru þúsundir manna nú atvinnulausar eða í 25% vinnu. Talið er að atvinnuleysi gæti náð sögulegu hámarki á næstunni og allt að sautján prósent landsmanna gætu orðið án vinnu. Ferðaþjónustan, flugbransinn, veitinga- og skemmtanabransinn hafa orðið harðast úti. 

Réttlaust daglaunafólk

Leiðsögumaðurinn Svanbjörg H. Einarsdóttir er nú atvinnulaus. „Eins og flestir leiðsögumenn hef ég unnið einskonar vertíðavinnu og þá fyrir fleiri en eina ferðaskrifstofu,“ segir Svanbjörg  sem er með langa reynslu að baki í bransanum. Hún hefur sótt um atvinnuleysisbætur og sér ekki fram á vinnu á næstunni.

„Það eru miklar sveiflur í leiðsögustarfinu. Við vinnum í raun eins og daglaunafólk í gamla daga og erum réttlaus eftir því. Einstaka leiðsögumenn hafa verið fastráðnir en þá eingöngu ökuleiðsögumenn þ.e. með meirapróf, sem ég er reyndar með. En flest erum við ferðaráðin sem er arfleifð þess að leiðsögn var aukastarf og þetta hálfeitraða og einhliða ráðningarsamband er grunnurinn að réttleysi stéttarinnar.“

Svanbjörg segir atvinnuöryggið lítið hjá leiðsögumönnum því heimilt sé að fella niður lengri ferðir með fimm daga fyrirvara og styttri ferðir með sólarhrings fyrirvara.  

„Þá sitjum við uppi með ekkert og það hefur aldeilis gerst núna! Við vorum flest búin að bóka okkur að minnsta kosti út sumarið en sjáum nú fram á atvinnuleysi út árið,“ segir hún.  

„Samkvæmt lögum frá 2003 um tímabundna ráðningu starfmanna er vafasamt hvort það megi henda okkur svona út en hinsvegar er dagljóst að ferðaskipuleggjendur standa líka á brauðfótum. En vandi okkar núna felst líka í því að þar sem við vinnum í törnum, mikið yfir sumar, páska, jól og helgar, þá komum við illa út þegar starfshlutfall er metið og náum ekki fullum bótarétti og sjáum fram á skertar atvinnuleysisbætur. Á hverju eigum við þá að lifa?“ 

Hjónin bæði atvinnulaus

Hvenær fórstu í þína síðustu ferð?

„Ég fór í síðustu ferðina 17. mars þannig að ég hef ég verið atvinnulaus í mánuð,“ segir Svanbjörg sem hefur þó ekki setið auðum höndum síðan því hún situr í stjórn Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna.  

Ert þú reið?

„Já, ég er reið yfir þessu ótrúlega réttleysi þessarar annars vel menntuðu stéttar. Það verður augljóslega ekki hlaupið að því að fá aðra vinnu Maðurinn minn starfar í ferðaþjónustu og missti líka vinnuna þannig að ég sé ekki beint fram á blóm í haga og hef satt að segja miklar áhyggjur. En ég held að ég kjósi að vera frekar reið heldur en áhyggjufull. Það gefur manni þó drifkraft.“ 

Ætla að koma seinna

Friðrik Sigurbjörnsson, viðskiptastjóri hjá Kynnisferðum, er nú í 25% starfi. 

„Ég er núna í 25% vinnu, í þessari hlutaleið sem ríkisstjórnin kom upp. Ég er að vinna heima um einn til þrjá tíma á dag. Það er ennþá eitthvað að gera,“ segir Friðrik.

Friðrik segist telja að hann verði fyrir 20% tekjuskerðingu nú á meðan vinna liggur niðri hjá Kynnisferðum.

Friðrik Sigurbjörnsson notar tímann nú í atvinnuleysinu til að sinna …
Friðrik Sigurbjörnsson notar tímann nú í atvinnuleysinu til að sinna bæjarpólitík í Hveragerði, vera með börnunum og selja pottablóm á netinu. mbl.is/Ásdís

„Það hefur auðvitað áhrif á okkur, fjögurra manna fjölskyldu. Við vorum frekar nýbúin að kaupa hús,“ segir hann og segist hafa fengið frest á lánum hjá bönkum.

„Ég vona að vinnan fari að aukast smátt og smátt og að vinnan fari að taka við sér aftur með haustinu. Svo á eftir að koma í ljós hvaða hamlanir ríkisstjórnin setur á ferðalög til og frá landinu. Efnahagur fólks erlendis getur líka haft áhrif,“ segir hann.

„Nánast allt fyrirtækið mitt er nú í 25% vinnu en hjá Kynnisferðum vinna um 500 manns,“ segir hann.

Friðrik segir mikið um afbókanir en einnig séu margir ferðamenn sem færa ferðir sínar fram á haustið.

„Margir sem afbóka segjast samt ætla að koma seinna. Það veit bara ekki hvenær. Þetta er algjör óvissa.“

Pottablóm heim að dyrum

Hvernig líður þér, veldur ástandið þér kvíða og áhyggjum?

„Nei, mér finnst ég hafi tekist nokkuð vel á við þetta. Það er nóg að gera að vera með krakkana og svo er ég líka í bæjarpólitíkinni. Ég er formaður bæjarráðs hér í Hveragerði og það hefur verið mikið að gera undanfarið; um tíma vorum við með flest smit á landinu. Hér létust tveir bæjarbúar, hjónin. Þau voru jörðuð á miðvikudag og Hvergerðingar mynduðu hér raðir sitt hvorum megin við aðalgötuna og heiðruðu þau þegar líkfylgdin keyrði eftir götunni. Það var mjög átakanlegt að sjá,“ segir hann.

„Svo er ég farinn á flug með að selja pottablóm á netinu. Systur mömmu og mennirnir þeirra eiga garðyrkjustöðina Flóru. Mér datt í hug að senda fólki blóm heim og setti upp í samstarfi við þau vefverslun með blóm undir nafninu blomamarkadurinn.is. Við bjóðum upp á heimsendingu. Nú er ég farinn að ræða við fleiri garðyrkjustöðvar til að sjá hvort þau vilja koma inn í þetta. Ég keyri út sjálfur og er að fara með þrjár sendingar á eftir til Reykjavíkur.“

Þannig að það eru tækifæri í kreppunni?

„Já, ég myndi segja það. Maður þarf bara að finna þau. Ég hef aldrei getað setið auðum höndum.“

Áhyggjur af fyrirtækinu

Lára Gyða Bergsdóttir, flugliði hjá Icelandair, hefur áhyggjur af framtíð fyrirtækisins. 

„Ég hef verið flugfreyja í tuttugu og tvö ár. Ég elska starfið mitt og fyrirtækið sem ég vinn hjá,“ segir Lára Gyða.

Hún er nú í 25% vinnu og framtíðin er óljós.

„Laun okkar skerðast umtalsvert og ekki sér fyrir endann á því. Ég fer ekki í næsta flug fyrr en í maí, og jafnvel ekki fyrr en í júní en við fáum nú vinnuplan með styttri fyrirvara en áður,“ segir Lára Gyða.

Lára Gyða Bergsdóttir hefur unnið sem flugliði í 22 ár …
Lára Gyða Bergsdóttir hefur unnið sem flugliði í 22 ár og segist elska starf sitt. mbl.is/Ásdís

„Ég hef ég svakalegar áhyggjur af fyrirtækinu okkar. Við höfum áður komist í gegnum mikla erfiðleika í gegnum tíðina; árásina á Tvíburaturnana 2001, efnahagshrunið 2008, gosið í Eyjafjallajökli 2010 og óviðráðanleg veður svo eitthvað sé nefnt. Við sem teymi höfum ávallt unnið okkur út úr þeim erfiðleikum sem að hafa steðjað; við erum einstakur hópur og vinnum hjá frábæru fyrirtæki og ætlum okkur að komast út úr þessu,“ segi hún.

„Ég vona að við getum staðið af okkur þennan storm. Ég veit auðvitað ekki hvað gerist þegar við förum að fljúga aftur. Hversu mörgum þarf að segja upp? Það er alveg viðbúið að fleirum verði sagt upp en nú þegar hafa um það bil 200 manns misst vinnuna. Allir flugliðar eru inni, eins og er, í 25% starfi.“

Samvera með börnunum

Lára Gyða segist búa sig undir að draga saman seglin á næstu mánuðum þar sem innkoman verður minni, en hún er einstæð móðir og því eina fyrirvinnan.

„Fyrst og fremst ætla ég að vera róleg og njóta þess góða sem kemur út úr þessu erfiða ástandi. Núna er hér rútína og samvera með börnunum sem er lúxus sem oft hefur verið erfitt að halda í. Ég ætla að nýta mér það núna. Svo er ég nýflutt í nýtt hús og fæ þá allan tímann í heiminum til að koma mér vel fyrir. Svo tek ég stöðuna þegar þar að kemur,“ segir Lára Gyða og brosir.

„Við verðum að vona það besta og trúa því að við getum staðið þetta veður af okkur saman.“

Ítarlegri viðtöl eru við Svanbjörgu, Friðrik og Láru Gyðu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og fleiri sem eru í svipuðum sporum. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert