Þrátt fyrir að tveir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland séu með réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á vélsleðaferð fyrirtækisins á Langjökul í janúar er ekki þar með sagt að þeir hafi augljóslega brotið af sér. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Fram kom í fréttum í dag að tveir, rekstraraðili og starfsmaður, væru með réttarstöðu sakborning vegna málsins og að rannsókninni væri að ljúka og yrði bráðlega sent ákærusviði. 39 manns voru í ferðinni vélsleðaferðinni á Langjökul sem endaði með því að björgunarsveitir þurftu að sækja fólkið.
Oddur bendir á að samkvæmt lögum um meðferð sakamála sé lögreglu skylt að rannsaka slys og aðrar ófarir þótt ekki liggi fyrir grunur um refsiverða háttsemi. Síðan sé spurning um það hvort stofnað hafi verið til hættu sem sé óforsvaranleg en það sé hvorki tímabært né viðeigandi að tjá sig um það að svo stöddu.
„Það eru tveir sem fá þessa stöðu sakbornings og þeir njóta þá þeirra réttinda sem sakborningur hefur og hafa þá rétt til að vera með verjanda viðstaddan skýrslutöku hjá lögreglu. Það er grundvallarmunurinn á sakborningi annars vegar og vitni hins vegar,“ segir Oddur og bætir við:
„Það er ekki sjálfgefið að þetta þýði að þarna sé einhver sem hafi brotið augljóslega af sér.“