Skakki turninn í Laugardalslaug fjarlægður

Staðið hefur til að endurnýja laugavarðarturninn í Laugardalslaug í mörg …
Staðið hefur til að endurnýja laugavarðarturninn í Laugardalslaug í mörg ár þar sem hann var orðinn mjög lúinn. Tími til þess gafst loks nú þegar laugin er lokuð vegna samkomubanns. Ljósmynd/Facebook

Á tímum samkomubanns gefast ýmis tækifæri til að ráðast í framkvæmdir sem annars hefði ekki orðið af. Dæmi um slíkt má til dæmis finna í Laugardalslaug en þar var skakki laugavarðarturninn fjarlægður á dögunum.

Fram kemur í færslu Reykjavíkurborgar á Facebook að staðið hefur til að endurnýja turninn í mörg ár þar sem hann var orðinn mjög lúinn. Nú hefur snyrtilegum gámaeiningum verið komið fyrir til bráðabirgða í stað turnsins. Til stendur að fara í miklar endurbætur á Laugardalslaug og stúku hennar á næstu árum.

Snyrtilegum gámaeiningum hefur verið komið fyrir í stað turnsins, en …
Snyrtilegum gámaeiningum hefur verið komið fyrir í stað turnsins, en þó einungis til bráðabirgða. Ljósmynd/Facebook

Sundlaugar hafa verið lokaðar frá því að hert samkomubann tók gildi síðari hluta mars og ekki er ljóst hvenær þær opna að nýju, það verður að minnsta kosti ekki 4. maí þegar fyrstu tilslakanir taka gildi.

Starfsfólk Laugardalslaugar hefur unnið að viðhaldsvinnu innandyra ásamt iðnaðarmönnum. Nú þegar frostlaust er orðið hefjast framkvæmdir utandyra, laugarker verða tæmd og pottar í áföngum til að þrífa og mála það sem þarf. „Allt ætti því að verða orðið skínandi fínt þegar sundlaugarnar opna dyrnar fyrir óþreyjufullum sundgestum á ný þegar samkomubanni lýkur,“ segir í færslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert