Vonar að sund verði í næsta pakka

Forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar hefur ekki trú á öðru en að …
Forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar hefur ekki trú á öðru en að sundlaugarnar verði með í næsta pakka, þ.e. geti opnað um mánaðamótin maí/júní. Það liggur þó ekkert fyrir um að svo verði. mbl.is/Þorgeir

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, eins og sést af bláum ruslagámi neðarlega á myndinni sem ljósmyndari mbl.is smellti af Sundlaug Akureyrar í gær. Í gáminn fer það sem fellur til við framkvæmdir á búningsklefunum, sem nú eru í fullum gangi þar sem lítið annað er að gera. Menn vonast þó til að geta bráðum opnað á nýjan leik.

„Það er snilld að geta nýtt þennan tíma,“ segir Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður sundlaugarinnar, sem er með alla sína starfsmenn í vinnu þrátt fyrir að sundlaugin sé lokuð gestum um óákveðinn tíma vegna kórónuveirufaraldursins. Tekjuhrunið í sundlauginni er vitanlega algert en sveitarfélög bera þann kostnað í stað þess að senda fólk á hlutabætur.

Elín segir tómlegt í lauginni án gestanna. „Við söknum mjög gestanna og þess að hitta ekki fastakúnnana. Það verður gaman þegar við opnum og förum að fá fólkið okkar í heimsókn aftur,“ segir Elín.

Sundlaugar opna ekki aftur 4. maí, eins og ýmis önnur þjónusta. Elín veit ekki frekar en aðrir hvenær sundlaugum verður heimilt að hefja starfsemi á nýjan leik en hún hefur þó trú á að það verði þegar næst er slakað á klónni, þ.e. í þeim afléttingum takmarkana sem eiga sér stað um mánaðamótin maí og júní. „Ég trúi varla öðru en að við verðum í þeim pakka,“ segir hún, „að þegar Íslendingar fara í sumarleyfi og geti ferðast aðeins um landið, að þá geti þeir farið í sundlaugarnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert