Voru í hjartastoppi í tvo klukkutíma

Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs við Óseyrarhöfn 17. janúar þegar …
Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs við Óseyrarhöfn 17. janúar þegar bíll fór í sjóinn. Þrír drengir voru í bílnum og eru þeir allir á batavegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir drengir sem voru í bíl sem fór í sjóinn við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í janúar voru í hjartastoppi í rúma tvo tíma. Læknir drengjanna fullyrðir að þeir séu fyrstu og einu Íslendingarnir sem hafa lifað af jafn langt hjartastopp. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV

Rétt rúmir þrír mánuðir eru frá slysinu. Þriðji drengurinn náði komst upp úr sjónum af sjálfsdáðum og kafarar björguðu hinum tveimur og eru þeir nú báðir komnir heim af spítala.

„Þeir voru ekki með neinn hjartslátt. Sjúkraflutningsmenn og læknar á spítalanum voru að skiptast á að hnoða þá og reyna að halda blóðrás til hjartans og heilans. Og þetta leit mjög illa út í raun og veru,“ segir Felix Valsson, læknirinn sem sá um sérstaka kælimeðferð drengjanna, í samtali við RÚV. 

Um þrjátíu mínútur liðu frá því að bíllinn fór í sjóinn og drengirnir voru komnir í sjúkrabíl og var líkamshiti þeirra 29 og 30 gráður, sem Felix segir í raun jákvætt. Drengirnir voru tengdir við hjarta- og lungnavél og í meðferðinni var verið að reyna að koma í veg fyrir heilaskaða og var hitastigi drengjanna haldið við 32 gráður í tvo sólarhringa og hægt og rólega náðu þeir svo eðlilegum líkamshita. Þá voru þeir lagðir inn á gjörgæsludeild í öndunarvél, þar sem þeir síðan vöknuðu. 

„Maður fær enn þá gæsahúð þegar maður sá að þeir vöknuðu. Það var bara ótrúleg stund. Sérstaklega því ef maður er hreinskilinn, þetta leit ekki vel út í byrjun,“ segir Felix. Að hans mati gekk allt upp frá upphafi til enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert