Björgunarsveit fékk fjórhjól að gjöf eftir flóðið

Um er að ræða tvö Arctic cat Alterra 1000cc fjórhjól.
Um er að ræða tvö Arctic cat Alterra 1000cc fjórhjól. Ljósmynd/Björgunarsveitin Sæbjörg

Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri fékk ánægjulegan glaðning á dögunum. Hvorki meira né minna en tvö Arctic cat Alterra 1000cc fjórhjól, frá Flateyringum sem vildu styrkja sveitina í kjölfar snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði í byrjun árs. 

Magnús Einar Magnússon, formaður Sæbjargar, segir að Flateyringar hafi staðið þétt við bakið á sveitinni eftir snjóflóðin en söfnun, sem er ótengd hjólunum, var hrundið af stað eftir snjóflóðin. Hún var sett af stað án aðkomu sveitarinnar og safnaðist vel, að sögn Magnúsar. 

Hjálpa við leitir

Hjólin munu nýtast sveitinni vel á komandi sumri. „Útköllin á sumrin hérna fyrir Vestan eru mestmegnis leitarútköll og þetta mun hjálpa okkur töluvert við þau,“ segir Magnús.

Eftir snjóflóðin hafði Flateyringur samband við sveitina og kannaði hvers konar tæki sveitina vantaði. Úr varð að sveitin fékk áðurnefnd hjól. 

Annað hjólið og tækjabúnaður á þau bæði eru gjöf frá Flateyringunum Hinriki Kristjánssyni, Ingibjörgu Kristjánsdóttur og þeirra börnum. Hitt hjólið var fjármagnað með peningum sem söfnuðust í söfnuninni eftir flóðin.

Lítil hreyfing á forvörnum

Magnús segir að lítil hreyfing hafi undanfarið verið á fyrirhuguðum forvörnum fyrir möguleg snjóflóð framtíðarinnar. „Þetta COVID dæmi er gjörsamlega að yfirtaka allt saman svo maður heyrir ekkert sérstaklega mikið af því. Það er þó búið að hreinsa höfnina og fleira.“

Í Facebook færslu á síðu sveitarinnar segir: „Svona gjöf er aldrei hægt að þakka nægilega vel fyrir en við erum þeim ævinlega þakklát og mun þetta bæta starf sveitarinnar til muna.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert