Ekki úrlausnir fyrir alla í aðgerðunum

Þórdís sagði óumflýjanlegt að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustunni færu í …
Þórdís sagði óumflýjanlegt að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustunni færu í þrot á næstunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framhald efnahagsaðgerða vegna COVID-19 mun ekki fela í sér úrlausn fyrir alla, að sögn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í morgunþætti RÚV í morgun sagði Þórdís að ríkisstjórnin hafi í fyrstu bundið vonir við að áfallið yrði tímabundið. Ástandið sé það þó ekki. 

„Nú er auðvitað bara allt, allt önnur mynd uppi. Við erum að horfa upp á miklu, miklu dýpri kreppu, miklu lengri tíma. Töluvert lengri tíma fyrir ferðaþjónustuna til þess að byggja sig upp. Við sáum ekki fyrir að hún myndi algjörlega falla og svo rísa, heldur að við myndum bera hana uppi yfir tímabilið og svo halda áfram.“

Óumflýjanlegt að fyrirtæki fari í þrot

Þórdís sagði óumflýjanlegt að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustunni færu í þrot á næstunni en að vonandi yrði óhætt að opna Ísland sem fyrst þar sem framtíð landsins í ferðaþjónustu væri björt. 

„Það verða margir fyrir vonbrigðum og þetta verður sársaukafullt og þetta verður erfitt. Það breytir ekki því að framtíð ferðaþjónustunnar er björt. Einhverjum kann að finnast skrýtið að maður skuli segja þetta en það er þannig,“ sagði Þórdís.

Hún greindi frá því að erfitt væri að útfæra fyrrnefndar efnahagsaðgerðir, sem kynntar verða seinni partinn í dag, þannig að þær henti sem flestum. Hún vonaði þó að margir myndu öðlast von um framhaldið vegna þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka