Áframhaldandi efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 miðast við það óvissuástand sem uppi er, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Erfitt er að spá fyrir um þróun faraldursins sem virðist vera í mikilli rénun hérlendis. Hann getur blossað aftur upp, að sögn Katrínar.
Helst er einblínt á lítil- og meðalstór fyrirtæki í aðgerðunum og mun viðbótalánastuðningur ná til mjög margra fyrirtækja, að sögn Katrínar. Hún telur að verkefnið sé ekki of stórt fyrir stjórnvöld til að takast á við.
„Verkefnið er vissulega stórt en við kynntum fyrsta aðgerðapakkann fyrir mánuði síðan og núna erum við að byggja ofan á hann. Þar horfum við enn á varnir, vernd og viðspyrnu og það eru ólíkar aðgerðir sem eru kynntar núna og voru kynntar þá. Núna erum við svolítið að taka utan um þessi litlu- og meðalstóru fyrirtæki sem eru kannski ekki að fá lausn sinna mála í gegnum þessi stóru brúarlán,“ segir Katrín.
Mikil áhersla er lögð á félagsleg málefni, að sögn Katrínar. „Ég held að það sé lærdómur sem við drögum af síðustu kreppu að það er mikilvægt að bíða ekki með slíkar aðgerðir.“
Í aðdraganda aðgerðanna var mikið rætt um stuðning við stúdenta. Ekki er útlit fyrir að stúdentar muni fá atvinnuleysisbætur í sumar eins og stúdentahreyfingar, til að mynda Stúdentaráð Háskóla Íslands og Landssamtök íslenskra stúdenta, hafa kallað eftir.
„Við leggjum mesta áherslu á það að þeir geti fengið störf eins og við erum að leggja til með þessum 2.000 milljónum í sumarstörf, við væntum þess að sveitarfélögin komi með myndarlegt mótframlag þar. Þetta geta orðið allt að 3.000 störf,“ segir Katrín og nefnir einnig fjárútlát til Nýsköpunarsjóðs námsmanna og sumarnám.
Nú eru um 50.000 manns á atvinnuleysisskrá. Katrín segir að ríkisstjórnin hafi í upphafi ekki séð slíkt fyrir en allt hafi breyst hratt.
„Ekki við upphaf faraldursins en við höfum auðvitað séð þessa mynd raungerast hratt með útbreiðslu faraldursins. Með þessum í raun og veru fordæmalausu lokun landamæra.“
Spurð hvort aðgerðirnar miðist viðað faraldurinn réni mikið, eins og útlit er fyrir, segir Katrín:
„Við erum auðvitað ekki komin með pálmann í hendurnar. Við eigum enn eftir tvær vikur af samkomubanni og það er ofboðslega mikilvægt að við höldum þetta út þannig að við getum haldið stjórn og haft stjórn á þessu. Markmiðið er auðvitað að engin smit séu til staðar og við erum auðvitað að stefna að því hægt og bítandi en við höfum auðvitað líka séð ríki sem hafa lent í því að vera komin niður engin smit og síðan blossar þetta upp aftur eins og í Singapúr.“
Flestar aðgerðirnar eru einsskiptis en sumar þeirra eru til langframa, til dæmis aðgerðir sem snerta nýsköpun og matvælasjóð.