Lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir aðgerðapakka tvö í Safnahúsinu í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir aðgerðapakka tvö í Safnahúsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Meðal þeirra úrræða sem ríkisstjórnin ætlar að ýta úr vör í öðrum aðgerðapakkanum, sem kynntur var í Safnahúsinu í dag, eru lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki. Er þessu ætlað að tryggja greiðsluflæði í hagkerfinu og „rjúfa vítahring“ sem gæti orðið.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti þessi lán á fundinum og sagði meðal annars að þau myndu líklega gagnast 8-10 þúsund fyrirtækjum. Þyrftu þau að uppfylla skilyrði um 40% tekjufall og ákveðið hlutfall launakostnaðar af heildarkostnaði fyrirtækisins. Sagði hann að hámark slíkra lána væri 6 milljónir og að ríkið myndi ábyrgjast þau að fullu.

Sagði Bjarni að tilgangur lánanna væri meðal annars að koma til móts við fyrirtæki sem gætu orðið fyrir áhrifum af því að fá ekki greidda reikninga frá öðrum fyrirtækjum þar sem útbreiðsla kórónuveirunnar hefur valdið búsifjum. Sagði hann að lán sem þessi gætu skipt miklu fyrir lítil fyrirtæki með t.d. 2-5 starfsmenn.

Sagði Bjarni mikilvægt að fletja kúrfuna, ekki bara í tengslum við veiruna sjálfa, heldur líka í efnahagslegu samhengi þar sem passa þyrfti upp á að lægðin verði ekki of djúp og atvinnuleysi of mikið. Mjög erfitt væri að komast upp úr slíku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert