Baldur Arnarson
Vegna gerbreyttrar stöðu í atvinnulífinu skoða fulltrúar launþega leiðir til að gera fyrirtækjum kleift að hækka laun þrátt fyrir mikið fall í eftirspurn vegna faraldursins. Samkvæmt lífskjarasamningunum hækka laun í fjórum lotum. Hægt verður að endurskoða samningana í september næstkomandi.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir óraunhæft að hækka laun næstu áramót. „Það segir sig sjálft að launahækkun ofan í þessar hamfarir er eins og að hella olíu á eld. Hún væri til þess fallin að auka atvinnuleysi og hægja enn frekar á viðspyrnu atvinnulífsins,“ segir Halldór.
Hækkunin var hluti af lífskjarasamningunum. Önnur hækkun af fjórum verður greidd næstu mánaðamót. Sú þriðja er áformuð um næstu áramót. Með því hafa almenn laun hækkað um tæp 51 þúsund og taxtalaun um 65 þúsund síðan samningarnir tóku gildi í apríl í fyrra. Niðursveifla var þá hafin í íslensku efnahagslífi sem hefur dýpkað enn frekar vegna kórónuveirufaraldursins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir félagið ekki munu afsala sér launahækkunum heldur reyna að ná þríhliða samningi milli stjórnvalda, atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar svo þær geti gengið eftir. M.a. megi skoða að lækka tryggingagjald tímabundið. Þá þurfi samningsaðilar að sammælast um að halda aftur af verðlagshækkunum.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir ákveðið uppgjör fram undan þegar endurskoðunarákvæði samninganna virkjast í september. „Ég hef hins vegar unnið út frá því að lífskjarasamningarnir haldi og að samningsaðilar reyni að róa öllum árum að því að svo verði,“ segir Drífa í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.