Lyfsala á netinu eykst umtalsvert

Netverslun með lyf hefur aukist umtalsvert upp á síðkastið að sögn Hauks Ingasonar, lyfsala í Garðs apóteki. Auk apóteksins hefur hann rekið lyfsöluvefinn appotek.is í þrjú ár og er frumkvöðull á því sviði hérlendis.

„Það hafa margir skráð sig undanfarið og það er fólk á öllum aldri, ekkert síður eldra fólk en yngra. Viðskiptavinirnir eru bæði af höfuðborgarsvæðinu og utan af landi,“ sagði Haukur. Hann sagði að appotek.is hefði lengi verið eitt á lista Lyfjastofnunar yfir apótek sem hafa heimild til lyfsölu á netinu. Nítján apótek hafa nú tilkynnt netverslun með lyf, samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun.

Haukur sagði að vefurinn appotek.is hefði frá upphafi gætt vel að öryggismálum gagnvart viðskiptavinum sínum. Gerð var öryggisúttekt á appotek.is vefverslun Garðs apóteks og var hún staðfest af Embætti landlæknis.

„Þú þarft að hafa rafræn skilríki til að skrá þig inn hjá okkur,“ sagði Haukur. „Hjá okkur geta innskráðir séð lyfseðla sína og barna sinna 15 ára og yngri. Einnig getur fólk séð lyfjagreiðslutímabil sitt og greiðslustöðu á tímabilinu.“ Hægt er að fá lyfin send heim á höfuðborgarsvæðinu. Sé pantað fyrir kl. 12.00 er lyfjunum ekið heim til viðskiptavina samdægurs, annars daginn eftir. Lyf eru send út á land með Póstinum, að því er fram kemur í Mmorgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert