Milljarður í álagsgreiðslur vegna kórónuveiru

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verja um einum milljarði króna í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem starfar undir miklu álagi vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Enn fremur verða framlög til geðheilbrigðisþjónustu aukin um 540 milljónir króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Þessar aðgerðir eru liður margþættum aðgerðum stjórnvalda vegna áhrifa Covid-19 hér á landi sem kynntar voru í dag.

Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks verða í formi eingreiðslna til starfsfólks í framlínunni á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í heilsugæslunni en útfærslan verður á hendi forstöðumanna hverrar stofnunar. 

Geðheilbrigðisþjónustan verður efld með fjölgun sérfræðinga í geðheilsuteymunum og innan heilsugæslunnar og með aukinni áherslu á markvissa fræðslu og upplýsingagjöf sem Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu mun leiða. Rík áhersla verður á að tryggja sem best jafnt aðgengi landsmanna að þjónustunni. Aukin framlög vegna þessa eru tímabundin til eins árs.

Með auknum fjármunum verður sálfræðingum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu fjölgað um 16. Stöðugildum fjölgar um 10 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og um eitt í hverju heilbrigðisumdæmi utan höfuðborgarsvæðisins. 

Framlög til geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins verða aukin svo unnt verði að fjölga geðlæknum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Geðheilsuteymin sinna annars stigs geðheilbrigðisþjónustu, þ.e. sérhæfðari þjónustu en unnt er að veita innan heilsugæslunnar.

Teymin eru ætluð þeim sem greindir eru með geðsjúkdóm og eru eldri en 18 ára. Eitt af markmiðunum með því að efla geðheilsuteymin er að auka getu þeirra til að sinna jaðarhópum, t.d. fólki með tvígreindan neyslu- og fíknivanda samhliða öðrum geðröskunum og fólki sem er með þroskaröskun og glímir jafnframt við geðröskun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert