Munum tapa gríðarlegri verðmætasköpun

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ef tekjufall ríkisins er lagt saman við útgjaldaauka þess vegna COVID-19 er hægt að gera ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði 250 milljarðar að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Stjórnvöld sjá fram á að samdráttur í landsframleiðslu geti orðið um 9% í ár. Þegar hagvöxtur getur hafist að nýju mun gríðarleg verðmætasköpun hafa tapast en markmiðið með áfram­hald­andi efna­hagsaðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna COVID-19 er meðal annars að lágmarka það tap, að sögn Bjarna. 

„Það sem ber að hafa í huga varðandi kostnað ríkissjóðs vegna svona aðgerða er það hvað eru bein ný fjárútlát vegna aðgerðapakkanna og hvað eru aðgerðir sem fresta tekjustreymi til ríkisins. Við þurfum þá að fjármagna tímabilið sem líður frá því að tekjur hefðu borist þar til þær berast samanber það sem við erum að gera í skattamálunum,“ segir Bjarni sem bendir á að stærsta viðfangsefni ríkissjóðs um þessar mundir sé að fást við tekjufallið sem verður óhjákvæmileg, óháð þeim aðgerðum sem stjórnvöld grípa til.

Halli ríkissjóðs vaxið hratt

„Við gerum ráð fyrir því að ef þú leggur saman tekjufall ríkissjóðs og útgjaldaaukann sem er að safnast í á þessu ári þá sé hægt að slá halla ríkissjóðs á 250 milljarða. Sú tala hefur auðvitað vaxið mjög hratt eftir því sem við sjáum betur hversu margir eru í þörf fyrir úrræði og hversu djúp efnahagslægðin verður.“

Bjarni segir að aðgerðirnar sem séu kynntar nú séu bráðaaðgerðir. „Eftir að við komumst í gegnum þessar bráðaaðgerðir þá þarf að fara að huga að því hvernig við ætlum að koma upp úr efnahagslægðinni. Meðal annars þannig að ríkissjóður verði ekki með ósjálfbæra skuldastöðu.“

Hagvöxtur hefjist að nýju á næsta ári

Spurður hversu langvinn stjórnvöld telji að efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins verði segir Bjarni:

„Þetta er mat sem er stöðugt verið að uppfæra. Við gerum ráð fyrir því að efnahagslægðin á þessu ári geti orðið í kringum 9%, þar eð að segja 9% samdráttur í landsframleiðslunni en að sama skapi að við fáum viðspyrnu á næsta ári og þá geti hagvöxtur hafist að nýju. Það breytir því ekki að við munum í millitíðinni hafa tapað gríðarlegri verðmætasköpun þannig að verkefnið er auðvitað fyrst og fremst það að endurheimta landsframleiðsluna, að endurheimta verðmætasköpun í samfélaginu. Ef að það tekst ekki þá liggur það skýrt fyrir að við höfum einfaldlega ekki ráð á samneyslunni, á heilbrigðiskerfinu, á menntakerfinu, samgöngukerfinu, almannatryggingum, þá höfum við einfaldlega stillt útgjaldastiginu þannig að það er í engum tengslum við tekjuöflun ríkisins.“

Mun taka tíma að endurheimta tekjur

Bjarni segir að með aðgerðunum reyni stjórnvöld að lágmarka tjónið sem verður af heimsfaraldrinum. 

„Með þessum örvandi aðgerðum. Með því að auka tekjuflæði í samfélaginu, að tryggja aðgengi að lausafé þannig að menn geti staðið í skilum, borgað laun og greitt reikninga og á sama tíma að fara í fjárfestingar og aðrar örvandi aðgerðir hvað varðar nýsköpun og atvinnusköpunarátökin í sumar. Þá eru meiri líkur á að við finnum viðspyrnu hraðar. Aukin umsvif í landsframleiðslu munu skila sér í auknum tekjum til ríkisins en það mun taka tíma að endurheimta tekjurnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert