Hallur Már
„Það hljómaði eins og það ætti að leyfa fyrirtækjunum að fara á hausinn og að svo ættum við bara að byrja upp á nýtt,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Eldingar, eftir fund með ferðamálaráðherra í dag. Hún er ósátt við skilaboðin sem stjórnvöld senda frá sér. Mikið vanti upp á til að fyrirtæki í ferðaþjónustu sjái fram á að eiga sér framtíð í þeim úrræðum sem stjórnvöld kynntu í gær.
Viðbrögð innan ferðaþjónustunnar hafa verið á þessum nótum fyrr í dag sendi forstjóri Arctic Adventures frá sér afdráttarlausa yfirlýsingu þar sem lýst var yfir miklum vonbrigðum með þær aðgerðir sem voru kynntar í gær.
Í myndskeiðinu er rætt við Rannveigu en um 45 starfsmenn fyrirtækisins eru nú á hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar og um hver mánaðarmót sem líða núna þurfa fyrirtæki í þeirri stöðu að taka erfiðar ákvarðanir.
Einnig er rætt við Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, en hann segir vissulega vera rétt að margir innan ferðaþjónustunnar sem séu ósáttir við svörin sem hafa verið gefin af yfirvöldum. Hann segist þó hafa skilning á því að stjórnvöld hiki við stórar yfirlýsingar þar sem framtíðarhorfur hafi tekið hröðum breytingum frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar tók að setja líf jarðarbúa úr skorðum.