„Þessi gjöf mun nægja sem meðferð fyrir 100 sjúklinga sem hafa veikst illa af nýju kórónuveirunni.“
Þetta segir Magnús Gottfreðsson, prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum hjá Landspítalans, í Morgunblaðinu í dag, en japönsk stjórnvöld hafa gefið spítalanum 12.200 töflur af veirulyfinu Favipiravir, sem einnig er þekkt undir nafninu Avigan. Von er á lyfinu til landsins á næstu dögum. Lyfið er framleitt af lyfjafyrirtækinu Fujifilm og það var japansk-íslenska fyrirtækið Takanawa sem hafði milligöngu um innflutninginn.
Auk þess að gefa sjúklingum lyfið mun Landspítalinn láta fara fram klíníska rannsókn á virkni lyfsins.
Bolli Thoroddsen og starfsmenn japansk-íslensks fyrirtækis hans, Takanawa, útveguðu lyfið frá japanska lyfjafyrirtækinu Fujifilm, sem Takanawa hefur sterk tengsl við.
„Óhemjumikil eftirspurn, jafnvel kapphlaup, er á heimsvísu eftir lyfinu frá minnst 50 löndum og okkur hefði ekki tekist að fá lyfið og hvað þá fengið það gefið nema af því að utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, skrifaði bréf til utanríkisráðherra Japans. Jafnframt beitti japanski sendiherrann á Íslandi sér gagnvart japanska utanríkisráðuneytinu með stuðningi íslenska heilbrigðisráðuneytisins. Velvilji Japana í garð Íslendinga hefur vafalaust líka skipt hér máli,“ segir Bolli.