Segir tillögur stangast á við stjórnarskrá

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Ólíðandi er að ríkisstjórnin færi ábyrgð af ferðaþjónustufyrirtækjum yfir á neytendur. Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Samtökin sendu í gær frá sér harðorða ályktun vegna tillagna ríkisstjórnarinnar um að breyta lögum á þá leið að ferðaþjónustufyrirtæki geti í einhverjum tilfellum gefið út gjafabréf vegna niðurfelldra ferða í stað endurgreiðslu.

Breki segir það mat Neytendasamtakanna að breytingin brjóti gegn eignarréttarákvæði 72. greinar stjórnarskrárinnar, enda sé með þessu verið að breyta skilmálum kaupsamninga afturvirkt. „Þegar fólk kaupir ferðir er það gert á ákveðnum forsendum miðað við þau lög sem gilda. Það gengur ekki að skikka neytendur til að lána ferðaskrifstofum fé vaxtalaust og sitja uppi með áhættuna,“ segir hann. Hafa Neytendasamtökin enda bent á að gjafabréf hjá gjaldþrota fyrirtækjum séu einskis virði.

Hann á von á að neytendur muni leita réttar síns ef af lagabreytingu verði, og ekki muni standa á samtökunum að leggja félagsmönnum lið í þeirri baráttu.

Neytendasamtökin munu skila inn umsögn um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar síðar í dag. Er þar meðal annars lagt til að fordæmi Dana verði frekar fylgt. Þar í landi hafa stjórnvöld hlaupið undir bagga með ferðaþjónustufyrirtækjum og lánað þeim vaxtalaust fyrir endurgreiðslum vegna ferða sem falla niður sökum kórónuveirufaraldursins. Þannig sé komið til móts við ferðaþjónustu án þess að áhættu sé velt yfir á neytendur, því fari félagið í þrot situr ríkið uppi með kostnaðinn.

Í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun er kveðið á um skyldu fyrirtækja í þeim geira til að leggja fram tryggingu, sem getur staðið undir endurgreiðslu til viðskiptavina fari félagið í þrot. Þrátt fyrir það virðast mörg fyrirtæki í greininni ekki hafa nægilegt tryggingafé til þess og segir Breki að í samtölum sínum við forsvarsmenn fyrirtækja hafi hann fengið staðfestingu á því. Það hafi til að mynda verið raunin er ferðaskrifstofan Farvel varð gjaldþrota skömmu fyrir jól í fyrra, en þá hafði fyrirtækið um hríð vanrækt að leggja fram nægilegar tryggingar.

Breki segir umhugsunarefni að ekki sé betur tryggt að ferðaskrifstofur ræki tryggingaskyldu og vísar á Ferðamálastofu, sem hefur umsjón með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert