Strandaglópar læra íslensku

Óhætt er að segja að Hlemmur Square sé eitt líflegasta hótel landsins þessa dagana þar sem á milli 40-50 strandaglópar og eftirlegukindur dvelja á meðan ferðalög liggja niðri. Barinn er opinn og byrjað er að kenna fólki íslensku. Fyrstu orðin sem hópurinn lærði ættu að koma sér vel í ástandinu. Lesendur geta eflaust ímyndað sér hvaða frasi það er en svarið fæst í myndskeiðinu þar sem kíkt er á fyrsta íslenskutímann sem haldinn var á hótelinu á mánudag.

Þar er einnig rætt við feneyska ferðalanginnn Michelangelo Montenapoleone sem hefur verið fastur hér á landi í mánuð eða frá því að hann ferðaðist hingað vegna vinnu sinnar sem tengist Secret Solstice hátíðinni. Hann segist lesa mikið og fylgjast vel með fréttum af faraldrinum til að drepa tímann. 

Þá er rætt við Klaus Ortlieb, eiganda Hlemms Square, sem byrjaði að leigja út herbergi og gistiaðstöðu til lengri tíma þegar ljóst var í hvað stefndi um miðjan síðasta mánuð. Hann segir mikilvægt að fólk missi ekki sjónir á því að ástandið sé tímabundið og að Ísland muni ávallt hafa sína miklu menningu, sögu og náttúru. Þessu verður miðlað á litlum fyrirlestrum fyrir hótelsgesti á næstunni til að stytta fólki stundirnar, enda eru þeir flestir farnir að þekkja borgina eins og lófan á sér eftir síðustu vikur.

Gregory Owen er einn þeirra sem býr á hótelinu en hann kom til landsins þann nítjánda mars með atvinnutilboð í vasanum en hann er sjómaður og bátasmiður. Þær áætlanir hafa að sjálfsögðu tekið miklum breytingum en hann er engu að síður staðráðinn í að flytjast til landsins. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert