Kórónuveirufaraldurinn hefur sannað gildi ýmissa tæknilausna í heilbrigðiskerfinu og á síðustu vikum hefur stórt stökk verið tekið í aðlögun að ýmsum heilsulausnum, bæði hjá starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og landsmönnum almennt. Þetta segir Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo.
Guðjón var meðal fyrirlesara á ráðstefnu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNFP) og Norrænu nýsköpunarstofnunarinnar í Singapúr (NIH-SG). Auk Guðjóns fluttu Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis, og Eiríkur Nilsson, frá upplýsingatæknifyrirtækinu Aranja, erindi á ráðstefnunni, sem vitanlega var haldin rafrænt.
Singapúrska stofnunin hefur um hríð litið til tæknilausna á Norðurlöndum, svo sem í heilbrigðismálum og segir Guðjón að með fyrirlestrunum hafi þríeykið kynnt þær lausnir sem þróaðar hafa verið til að bregðast við áhrifum faraldursins, ekki einungis á heilbrigðiskerfið heldur einnig efnahagskerfið.
Á fundinum voru einnig fulltrúar annarra Norðurlanda og Singapúr. Guðjón segir að ríkin eigi það sammerkt að standa nokkuð framarlega er kemur að nýtingu tækninnar í heilbrigðisþjónustu. Nokkur þemu hafi verið sameiginleg í máli allra, svo sem notkun rakningarapps en fáar þjóðir hafi þó jafnöflugt rakningarteymi og Íslendingar, sem reki hvert einasta smit sem greinist.
Vísar Guðjón þar til C-19 rakningarforritsins, en fyrir rúmri viku höfðu 127 þúsund Íslendingar sótt það í símann sinn. Þá nefnir Guðjón töluverðar breytingar sem gerðar hafa verið á Heilsuveru, miðlægum vettvangi þar sem sjúklingar geta sótt upplýsingar úr eigin sjúkraskrá og átt í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk.
Heilsuvera fór í loftið fyrir fimm árum en notkun hefur stóraukist á undanförnum vikum, auk þess sem ýmsum nýjungum hefur verið bætt við. Má þar nefna möguleikann á að skrá sig í sóttkví og fá staðfestingu þess rafrænt, sem og innleiðingu rafrænna læknisvottorða. Miðlægur gagnagrunnur Heilsuveru hafi einnig verið tengdur við gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar og almannavarna svo að upplýsingar um þau sem eru smituð eða í sóttkví birtist jafnóðum í sjúkraskrá.
Þá hefur búnaður til notkunar myndsímtala verið tekinn í notkun og geta skjólstæðingar því rætt við lækni eða hjúkrunarfræðing heiman frá. „Þetta nýttist til að mynda mjög vel á Húsavík þegar heilsugæslan fór öll í sóttkví eftir að hópsmit kom þar upp,“ segir Guðjón. Nýjungin létti undir heilbrigðisstarfsfólki og sé einnig kærkomið fyrir sjúklinga í áhættuhópi og aðra sem þurfa að vera í reglulegum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk og geta nú gert það án þess að hætta sér út fyrir hússins dyr. Meðal athyglisverðra lausna sem kynntar voru á ráðstefnunni, nefnir Guðjón hvernig Svíar bjóði upp á túlkaþjónustu í myndsamtölum.
Aðspurður segir hann klárt mál að kórónuveirufaraldurinn muni hafa jákvæð áhrif á heim heilbrigðislausna til frambúðar. „Það má segja að við höfum teki stór skref fimm ár fram í tímann með þessari aðlögun, bæði heilbrigðisstarfsfólks og skjólstæðinga, að tækninni. Ég held líka að þetta muni ýta við fjárfestum á þessu sviði,“ segir Guðjón. Myndsímtalalausnin hafi til að mynda verið í prófun er faraldurinn reið yfir, en í kjölfarið var allt kapp lagt á að koma henni í gagnið sem fyrst.
Hann telur að ýmsar lausnir sem séu í farvatninu komi til með að einfalda störf heilbrigðisstarfsfólks, en ekki síður jafna aðgengi fólks að þjónustu. Nefnir hann sem dæmi íbúa dreifðari byggða; rafrænar lausnir geti gefið þeim kost á að sækja sér heilbrigðisþjónustu að heiman sem þeir þyrftu ella að sækja um langan veg.