„Ég var ansi heppin að ná mér í veiruna, eða hitt þó heldur. En ég er búin að ná mér að fullu og er alveg hreint eldhress í dag,“ segir Þóra Magnúsdóttir, sem hélt upp á níræðisafmæli sitt þá nýlega laus úr einangrun eftir að hafa greinst með COVID-19-sjúkdóminn, í samtali við mbl.is.
Þóra eða Dídí eins og hún er ávallt kölluð segist ekki hafa orðið mjög veik, en hún hafi verið með einkenni í langan tíma sem henni hafi þótt „voðalega pirrandi“. Einkennin voru að mestu leyti almennur slappleiki og höfuðverkur en hún mældist einnig með hita.
Dídí varð níræð annan í páskum en tveimur dögum áður hafði hún verið einkennalaus í um það bil tíu daga og því formlega batnað. Hún hafði ætlað sér að halda upp á afmælið en sú áætlun varð nánast að engu enda mátti hún ekki taka við fleirum en tíu í heimsókn til sín vegna samkomutakmarkana í Eyjum.
Þá voru margir fjölskyldumeðlimir hennar í sóttkví eða einangrun en nokkrir gátu þó mætt í heimsókn til hennar í hlífðarfatnaði og settu þeir upp fjarafmælisveislu fyrir hana.
„Ég var ákveðin í að halda upp á níræðisafmælið en það fór nú allt öðruvísi en ég hélt. Ég var bara hérna heima og svo töluðu þau við mig og sungu fyrir mig afmælissönginn frá Reykjavík. Það var voða fjör en það var skrýtið,“ útskýrir hún.
Eins og gefur að skilja þá hefur Dídí upplifað ýmislegt á sinni löngu ævi, þar á meðal gosið í Vestmannaeyjum árið 1973. Hún segir heimsfaraldur kórónuveirunnar þó það furðulegasta sem hún hefur lent í. „Þetta hefði mér ekki dottið í hug,“ segir hún en þvertekur fyrir það að hafa orðið smeyk eftir að hún greindist með sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur.
„Nei nei ég hef aldrei orðið neitt hrædd, alveg sama hvað skeður. Þetta gengur allt yfir og ég hef aldrei orðið hrædd við neitt. Það sem ég ætla mér að gera, það geri ég,“ segir hún og tekur fram að hún hafi alltaf verið ákveðin manneskja.
Þrátt fyrir að hafa búið mest alla ævina í Vestmannaeyjum þá var hún með annan fótinn í Reykjavík sem barn og flutti síðan þangað árið 1948 til að læra hjúkrunarfræði. Eftir námið flutti hún aftur til Eyja, og það var síðan í gosinu sem fjölskyldan flutti til Reykjavíkur og hún hóf nám í skurðstofuhjúkrun. Hún sá ekki fyrir sér að flytja aftur til Eyja en fékk á endanum litlu um það ráðið.
„Fjölskyldan vildi öll vera í Eyjum nema ég. Ég var pínd til þess að flytja þangað aftur, en það gekk allt vel. Ég fór að vinna og það var allt í lagi,“ rifjar hún upp og hlær. Hún segir að synir sínir hafi verið sérstaklega ákveðnir í að flytja aftur til Vestmannaeyja og hafi verið tilbúnir til að flytja að heiman þrátt fyrir ungan aldur ef hún kæmi ekki með þeim.
Spurð hvort hún sé byrjuð að leggja á ráðin um hvað hún ætli sér að gera þegar lífið kemst aftur í eðlilegt horf segist hún vera hætt öllu slíku, en sjái þó fyrir sér að hún skreppi til Reykjavíkur að heimsækja fólkið sitt.
„Ég er aldrei með neinar áætlanir núna. Ég tek bara einn dag í einu og ef mér dettur eitthvað í hug þá geri ég það.“