Fósturvísar stigu á stokk fyrir heimilisfólkið

Söngurinn lagðist vel í mannskapinn, að sögn Rebekku.
Söngurinn lagðist vel í mannskapinn, að sögn Rebekku. mbl.is/Sigurður Unnar

Í heimilisgarði hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar mættust í dag heimilisfólk og fósturvísar, þar eð að segja karlasönghópurinn Fósturvísarnir, tólf manna rótarskot úr karlakórnum Fóstbræðrum.

Fósturvísarnir glöddu íbúa og starfsfólk Skógarbæjar og sungu þannig alla inn í sumarið, að sögn Rebekku Ingadóttur, forstöðumanns Skógarbæjar sem er eitt af hjúkrunarheimilum Hrafnistu.

„Þetta lagðist mjög vel í mannskapinn. Allir voru ótrúlega kátir með þetta. Þar sem við getum ekki fengið heimsóknir þá gladdi þetta bæði íbúa og starfsmenn mikið að geta farið út í garð og hlustað á tónleikana. Þeir sungu bæði ný lög og gömul í bland.“

mbl.is/Sigurður Unnar

Mikil tilhlökkun fyrir tilslökun

Þann 4. maí verður opnað á heimsóknir á Hrafnistu heimilum með ákveðnum takmörkunum en heimsóknarbann hefur nú staðið yfir í tæpa tvo mánuði. 

Rebekka segir að bæði heimilisfólk og starfsfólk sé spennt fyrir því að slakað verði á banninu. 

„Það er mikil tilhlökkun. Við starfsmennirnir erum núna bara að vinna í því að undirbúa þetta. Við munum tilkynna ættingjum á þriðjudaginn hvernig þetta verður. Þetta verður líklega þannig að einn aðstandandi fær að heimsækja hvern íbúa.“

Spurð hvort heimilisfólkið sé ekki kvíðið fyrir því að fá aftur fólk inn á Skógarbæ segir Rebekka:

„Ég held að þetta verði bara gott. Auðvitað erum við að setja strangar reglur og ef við gerum það rétt þá held ég að þetta gangi vel.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert