Lífsgleði og þrautseigja flýtti fyrir bata

Vilborg Freyja Ásmundsdóttir fagnar ótrúlegum bata við gangbrautina á Hörgárbrautinni.
Vilborg Freyja Ásmundsdóttir fagnar ótrúlegum bata við gangbrautina á Hörgárbrautinni. mbl.is/Margrét Þóra

„Hún er þrautseig baráttukona, mjög lífsglöð og jákvæð. Ég held að það lundarfar hafi gert að verkum að hún hefur náð ótrúlegum bata á skömmum tíma,“ segir Dagný Davíðsdóttir, móðir Vilborgar Freyju Ásmundsdóttur sem lenti í slæmu umferðarslysi við umferðarljós á Hörgárbraut 8. febrúar síðastliðinn. Hún slasaðist mikið en er nú komin á ról og nýlega byrjuð aftur í skólanum, í 1. bekk í Glerárskóla.

Dagný segir að þær mæðgur hafi farið yfir Hörgárbraut fyrr í vikunni og það hafi verið stórt skref fyrir stúlkuna, en það var fyrsta ferðin yfir frá því að slysið varð. Hún heimsótti vinkonu en Dagný hélt aftur yfir. Þá tók hún eftir því að ungur maður kom akandi og fór yfir á rauðu ljósi þó að hún væri að stíga út á götuna. Brýnir hún fyrir ökumönnum að fara varlega og fara eftir tilsettum reglum.

Miklar umræður urðu um umferðaröryggi á Hörgárbraut í kjölfar slyssins og voru úrbætur ræddar, án þess að nokkuð hafi gerst.

„Ég hef fylgst vel með þessum ljósum út um eldhúsgluggann undanfarnar vikur og því miður sé ég allt of oft að fólk ekur yfir á rauðu. Sérstaklega þegar það telur gangandi vegfarendur komna yfir, þá er tekið af stað án þess að græna ljósið hafi kviknað. Ég myndi vilja sjá skilti og fleiri en eitt, til að vekja athygli á gangbrautinni og að börn séu oft á leið þar yfir. Að minnsta kosti þar til ráðist verður í aðgerðir við götuna“ segir Dagný.

„Við þurfum ekki fleiri slys þarna,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert