„Svokallaðir lénakaupmenn eru alltaf á fullu og þeir eru með alls konar kerfi og tól,“ segir Axel Tómasson, forritari hjá Isnic, sem sér um skráningu léna á Íslandi.
Nýlega voru birtir tveir úrskurðir úrskurðarnefndar Isnic þar sem tvö erlend stórfyrirtæki kvörtuðu yfir því að ótengdir aðilar hefðu keypt lén með nafni þeirra hér á landi og boðið þau til sölu. Annars vegar var um að ræða snyrtivörufyrirtækið Chanel og hins vegar þýska lyfjafyrirtækið Bayer. Í báðum tilfellum var um að ræða erlenda lénakaupmenn og læsti Isnic lénunum meðan á meðferð málanna stóð. Úrskurðað var stórfyrirtækjunum í vil og lénin skulu umskráð á þau.
Í úrskurði úrskurðarnefndar má lesa að í báðum þessum málum hafði lénakaupmaður samband við fyrirtækin og bauð þeim lénin til kaups. Í tilfelli Bayer segir að lénið hafi verið notað í tengslum við vefsvæði sem hafði að geyma tilvísanir til fyrirtækisins og vara þess. Þá var lénið Bayer.is einnig boðið til sölu á síðu sem miðli lénaskráningum, sedo.com. Uppsett verð var 9.999 evrur eða ríflega ein og hálf milljón króna.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Axel að mismunandi sé í hvaða farvegi mál sem þessi lendi.