25 stoppistöðvar Borgarlínu kynntar

Skjáskot/Borgarlínan

Samkvæmt fyrstu tillögum verður fyrsti áfangi Borgarlínu 13 kílómetra langur og á honum 25 stöðvar. Leið línunnar liggur frá Höfðanum og að Hamraborg með stoppum á Hlemmi, Lækjartorgi, við Háskólann í Reykjavík og á fleiri stöðum. 

Almennt er gert ráð fyrir að 600 til 1.000 m verði á milli stöðva. Þó getur vegalengd á milli stöðva verið styttri þar sem byggð er þéttust.

„Gert er ráð fyrir að á Borgarlínu verði tvær tegundir stöðva, annars vegar kjarnastöð og hins vegar almenn stöð. Stöðvarnar eru fyrir Borgarlínu og Strætó“, segir í verk- og matslýsingu aðalskipulagsbreytinga í Reykjavík og Kópavogi.

Gera ráð fyrir tillögum um annan áfanga í vor

Óvíst er hvernig línan mun stöðva við Háskóla Íslands en á myndinni hér að ofan má sjá brotalínur sem liggja bæði til Háskóla Íslands og Öskju en þær tákna að ekki sé búið að ákveða hvor leiðin verði fyrir valinu. 

Vinna við fyrstu tvo áfanga Borgarlínu hófst í desember síðastliðnum og er gert ráð fyrir því að tillögur að báðum áföngunum verði tilbúnar í vor. 

Borgarlínan er almenningssamgöngukerfi sem byggð verður upp á samgöngu- og þróunarásum með sérrými til að greiða fyrir umferð og lágmarka tafir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert