Bjartsýnt að reikna með bóluefni í haust

Páll Matthíasson og Alma Möller eru bæði bjartsýn á að …
Páll Matthíasson og Alma Möller eru bæði bjartsýn á að bóluefni við kórónuveirunni finnist, en telja ólíklegt að það verði á þessu ári. Ljósmynd lögreglan

Þeir sem gera sér vonir um bóluefni gegn kórónuveirunni í haust eru mjög bjartsýnir. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á blaðamannafundi almannavarna í gær. „Ég held að menn séu ágætlega bjartsýnir á að það náist að lokum, en menn eru ekki eins bjartsýnir með tímaþáttinn,“ sagði Páll.

Undir þetta tók Alma Möller landlæknir. Hún segir almennt talið að þróun bóluefnis taki að lágmarki eitt og hálft ár. Vinna við þróun þess er á veg komin og munu rannsakendur við Oxford-háskóla í Bretlandi til að mynda hefja tilraunir með bóluefni gegn veirunni í vikunni. Þar með er þó ekki sagt að bóluefni sé á næsta leiti.

„Það er mjög flókið bæði að þróa bóluefni og að prófa það þannig að það sé fullvíst að það sé öruggt og aukaverkanir séu ekki of miklar,“ segir Alma. Hún segist þó vonast til að vinnan gangi hraðar nú þegar heimsbyggðin snýr bökum saman í vinnunni. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreingar, hefur þó sagst bjartsýnni en kollegar hans á að innan árs fáist bóluefni „gegn að minnsta kosti ein­hverju formi af þess­ari veiru“.

Margir bíða bóluefnis óþreyjufullir enda hefur því verið haldið fram að mannlíf komist ekki í hefðbundnar skorður fyrr en þess nýtur. Þannig komust vísindamenn við Harvard-háskóla að þeirri niðurstöðu að Bandaríkjamenn kynnu að búa við óregluleg samkomubönn á borð við skólalokanir og tilskipanir um að halda sig heima allt til ársins 2022, nema bóluefni verði aðgengilegt fyrr.

Rannsóknir á kórónuveirunni eru stundaðar við háskóla og sjúkrahús um allan heim, og þar er Landspítali enginn eftirbátur, enda háskólasjúkrahús. Páll segir að sérstakur rannsóknarvísindahópur tengdur kórónuveirunni hafi verið settur upp á Landspítala. Í honum eru á annan tug vísindamanna, bæði starfsmenn spítalans og prófessorar við Háskóla Íslands ef ekki hvort tveggja, auk þess sem hópurinn hefur samstarf við aðra rannsakendur, svo sem hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Verkefni hópsins snúa bæði að lýðheilsuverkefnum, sem unnin eru í samstarfi við sóttvarnalækni og embætti landlæknis en einnig verkefnum þar sem skoðuð er virkni mismunandi meðferða, en Páll sagði síðarnefndu verkefnin vera við það að hefjast

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert