Milljónirnar 350 bætast við hinar 400

Páll Magnússon er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Páll Magnússon er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/​Hari

350 milljóna styrkur stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar kemur ekki í staðinn fyrir fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, að sögn Páls Magnússonar, formanns allsherjar- og menntamálanefndar.

Frumvarpið hafi því ekki verið slegið út af borðinu vegna styrksins og ekki sé útlit fyrir að styrkurinn komi til frádráttar, en 400 milljónir eru áætlaðar í styrki til fjölmiðla í fjölmiðlafrumvarpinu. 

„Það er ekki búið að slá neitt út af borðinu. Þessi mál eru bara til meðferðar og umfjöllunar núna. Með hliðsjón af þessum aðgerðum í tengslum við fjölmiðla sem eru lagðar fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem nú liggur fyrir.“

Páll gat ekki svarað því hvenær fjölmiðlafrumvarpið yrði tekið fyrir á þingi.

„Ég býst við því að það verði einhver tíðindi af þessum málum en það er ekki hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær umfjöllun nefndarinnar lýkur,“ segir Páll. 

400 milljónir samþykktar en 350 til umræðu

Frumvarpið er skoðað í samhengi við styrkinn að því leyti að bæði lýtur að því sama — vandræðum í rekstri einkarekinna fjölmiðla, að sögn Páls. Spurður hvort það þýði að milljónirnar 350 verði dregnar af þeim 400 segir Páll að það sé ekki hugmyndin.

Styrkur fjölmiðlafrumvarpsins átti upphaflega að vera 520 milljónir en var síðar lækkaður í 400 milljónir. Þó styrkur vegna faraldursins sé nú 350 milljónir þýðir það ekki að styrkur fjölmiðlafrumvarpsins hafi lækkað niður í þá upphæð. 

Milljónirnar 400 sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu hafa nú þegar verið samþykktar í fjárlögum þessa árs. Milljónirnar 350 eru inni í frumvarpi fjáraukalaga sem er nú til umræðu í fjárlaganefnd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert