Karlmaður á sextugsaldri sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá 2. apríl, eða frá því krufning á líki eiginkonu hans leiddi í ljós að andlátið hefði líklega borið að með saknæmum hætti, verður áfram í gæsluvarðhaldi til 20. maí. Fimm tilvik heimilisofbeldis á Suðurnesjum komu upp í vikunni.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist gæsluvarðhaldsins á grundvelli almannahagsmuna. Rannsókn málsins miðar þokkalega, að sögn lögreglustjórans á Suðurnesjum, en embættið bíður eftir gögnum að utan.
„Tilfellum heimilisofbeldis [á Suðurnesjum] hefur því miður fjölgað,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Fimm tilvik heimilisofbeldis komu inn á borð lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni.
Spurður hvort það séu óvenju mörg tilvik segir Ólafur Helgi: „Eitt tilvik er alltaf of mikið.“
Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur heimilisofbeldi aukist vegna þeirrar einangrunar sem faraldur kórónuveirunnar hefur í för með sér.
Heimildir mbl.is herma að þrengt hafi verið að öndunarvegi konunnar. Ólafur segir að enn sé beðið eftir endanlegri niðurstöðu krufningarskýrslu.
Ættingi konunnar tilkynnti andlát hennar að kvöldi 28. mars. Rannsóknarlögreglumaður fór þegar ásamt lækni og presti á staðinn. Ekkert á vettvangi benti til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Sama máli gegndi um líkskoðun á sjúkrastofnun. Síðar leiddi krufning í ljós að andlát hennar hefði líklega borið að með saknæmum hætti og var eiginmaður hennar þá handtekinn. Konan var einnig á sextugsaldri.