Það er óhætt að segja að Gunnar Smári Jónbjörnsson, sjúkra- og crossfit-þjálfari á Akranesi, kunni að hugsa í lausnum. Þegar hann sá fram á að komast hvorki í sundlaugarnar né kalda pottinn vegna samkomubanns þá greip hann til þess ráðs að grafa baðkar í garðinum hjá sér þar sem hann nýtur jafnframt besta útsýnisins á Skaganum.
„Ég er að opna sjúkraþjálfun á Akranesi og fékk þetta baðkar gefins úr því húsi sem ég er að standsetja. Mig langaði svo í kalt kar í garðinn minn til að fara í eftir æfingar og þarna náði ég að selja kærustunni hugmyndina, en hún var mikið á móti því. Ég náði að selja henni hugmyndina með því að segja henni að þetta væri ekki bara kalt kar heldur væri hægt að setja heitt vatn í karið líka,“ segir hann hlæjandi. Og þá var sá ágreiningur úr sögunni.
Gunnar Smári var strax staðráðinn í því að grafa karið niður svo þetta væri nú jafn smekklegt og það væri notalegt. „Kærastan náði sér í sólstól og ég skóflu og ég var í svona tvo klukkutíma að grafa þetta niður. Svo prufukeyrði ég strax,“ segir hann stoltur. Fyrir vikið lítur baðkarið því í raun bara út eins lítill heitur pottur og ekki þarf að hafa neinar áhyggjur af því að framfylgja tveggja metra reglunni. En svo þarf auðvitað garðslöngu til að fylla það af vatni. Sem gefur þessu bara aukinn sjarma.
„Svo er maður með alveg geggjað útsýni,“ segir hann, en það eru engar ýkjur, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ekki amalegt að slappa þarna af eftir erfiða æfingu.
„Þetta verður allavega notað af mér á meðan sundlaugarnar eru lokaðar, þar sem ég er ekki með pall og pott. Þetta er bara sjálfsbjargarviðleitni hjá mér, svona fyrst ég á lóðina,“ útskýrir hann.
Það kann engan að undra að uppátækið hefur vakið kátínu hjá nágrönnum hans á Skaganum. „Þetta hefur vakið almenn gleðiviðbrögð, en ég veit ekki hvort margir fara að herma eftir mér.“
Gunnar Smári segist alltaf eitthvað vera að brasa, en hann hefur þó ekkert getað unnið síðan samkomubannið var sett á, þar sem hann vinnur bara í mikilli nálægð og snertingu við fólk. „Þetta er alveg versti tíminn fyrir mig.“ Hann hefur þó ekki setið auðum höndum þar sem hann er að gera upp hús og einnig að standsetja sjúkraþjálfun sem hyggst opna í maí. „Það er aldrei dauður tími hjá mér, ofvirka manninum.“
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.