Hátt í 5.000 væru í golfferðum núna

Tenerife er vinsæll áfangastaður og þrátt fyrir kórónuveirufaraldur, eða hugsanlega …
Tenerife er vinsæll áfangastaður og þrátt fyrir kórónuveirufaraldur, eða hugsanlega vegna hans, er uppselt í jólaferð þangað hjá VITA. Ljósmynd/Aðsend

Ef ekki væri fyrir kórónuveirufaraldurinn og hans hvimleiðu fylgifiska væru á milli fjögur og fimm þúsund Íslendinga í golfferðum á Íberíuskaga um þessar mundir, einkum á Spáni en einnig í Portúgal. 

Þannig metur Þráinn Vigfússson að minnsta kosti stöðuna, en hann er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA. Hann telur að líklega væru golfferðarfarar um 5.000 þessa stundina. Því til viðbótar segir hann að þúsundir manna væru í sólarlandaferðum í venjulegu fríi. Í staðinn er allt þetta fólk heima, enda lokaðist snemma á allar svona ferðir þegar ljóst var í hvað stefndi hjá ríkjum heims. 

„Þetta er náttúrulega sérstakt ástand,“ segir Þráinn. Hann og hans starfsfólk hafa staðið í ströngu síðustu vikur við að, aðallega, endurgreiða fólki sem átti bókaða ferð en einnig að færa ferðir þegar mögulegt er eða búa til inneignarnótu til síðari tíma nota. 

Síðan liggur ekki alveg allt niðri, segir Þráinn. Hann segir nokkra hreyfingu vera að komast á ferðamál, eins og sést á því að jólaferðir til Tenerife eru löngu uppseldar. Fólk sjái þannig fyrir sér á komandi tímum að komast á suðrænar slóðir, þó að óvissan sé enn mikil.

Inneignarnótur örugg aðferð hjá VITA

Fyrirhuguð er lagabreyting sem mun gefa ferðaskrifstofum aukið svigrúm til þess að hafa endurgreiðslur til viðskiptavina í formi inneignarnóta. „Við höfum einfaldlega verið að endurgreiða þeim sem hafa viljað það af þeim sem voru með ferðir hjá okkur, enda er það samkvæmt lögum. Ef þessi breyting verður gerð fáum við heimild til að skoða aðrar leiðir en við höfum ekki tekið afstöðu til þessara breytinga og bíðum eftir hvernig lögin verða í endanlegri útgáfu. En okkar nálgun hefur verið að koma vel fram við kúnnana og við munum áfram taka þann pól í hæðina,“ segir Þráinn.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna hefur haldið því fram að inneignarnótur séu verðlausar hjá ferðaskrifstofum, fari þær síðar meir í þrot. Það er í flestum tilfellum ekki rétt, enda eru ferðaskrifstofur með lögbundna tryggingu vegna pakkaferða hjá Ferðamálastofu, sem á að endurspegla áhættuna á hverjum tíma. Í tilfelli VITA segir Þráinn að þessi trygging myndi auðveldlega ná yfir þær inneignarnótur sem gefnar yrðu út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert