Lánsfjármagn frá ríkinu til Icelandair hugsanlegt

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir unnið að markaðslausn í …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir unnið að markaðslausn í samráði við stjórnvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið vinni nú að „markaðslausn í samráði við stjórnvöld.“ Hann útskýrir að þessi markaðslausn feli í sér að „í framhaldi af því að efnahagsreikningur félagsins sé styrktur með nýju hlutafé frá fjárfestum, komi ríkið hugsanlega með lánsfjármagn að borðinu.“

Unnið er að undirbúningi sölu hlutafjár til núverandi hluthafa eða nýrra aðila, áður en hugsanleg aðkoma stjórnvalda komi til, segir Bogi. „Það getur síðan þýtt að stjórnvöld hafi aðkomu að þessu ef það tekst að safna nýju hlutafé. Þá snýst verkefnið um það, að allir taki þátt í þessu,“ segir Bogi í samtali við mbl.is. „Við erum að sjá það allt í kringum hjá okkur að hið opinbera er að koma að flugfélögum. Staðan er bara þannig hjá þessum stærstu félögum í flestöllum löndum,“ segir hann jafnframt.

Aðspurður hvort stefnt sé með beinum hætti að aðkomu stjórnvalda þegar nýja hlutaféð liggi fyrir segir Bogi: „Hugsanlega, en það eru engin loforð á borðinu. Við erum að vinna að þessari markaðslausn í samráði við stjórnvöld.“

Engin formleg skilyrði verið rædd

Hann tekur í sama streng og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og ítrekar að engin umræða hafi farið fram á milli félagsins og hins opinbera um formleg skilyrði fyrir samstarfi á neinu stigi.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja allir það sama í viðtölum, að Icelandair sé í augnablikinu að greiða úr sínum málum og á meðan verði ekkert fullyrt um hugsanlega aðkomu stjórnvalda. Þar er þá líklega vísað til þessarar hlutafjársöfnunar félagsins.

Öllum er ljóst að staðan hjá Icelandair er alvarleg eftir að flugumferð lagðist að mestu niður vegna heimsfaraldursins. 240 starfs­mönn­um félagsinsvar sagt upp fyr­ir mánuði síðan og Bogi hefur sagt að uppsagnirnar verði fleiri fyrir mánaðamót, en vill ekki gefa neitt upp um fjölda þeirra eða umfang. Þegar hef­ur starfs­hlut­fall 92% starfs­manna flug­fé­lags­ins verið skert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert