„Tölur sem við höfum aldrei nokkurn tímann séð áður“

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar var gestur á fundi almannavarna í …
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar var gestur á fundi almannavarna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

53.000 manns þiggja nú um mundir atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun, 35.000 vegna minnkaðs starfshlutfalls í hlutabótaleiðinni svonefndu og 18.000 í almenna kerfinu, sem sagt á fullum bótum. Um 19% af þessum 53.000 eru beintengd ferðaþjónustunni og önnur 19% eru afleidd þaðan, svosem í verslun og þjónustu.

„Þetta eru tölur sem við höfum aldrei nokkurn tímann séð áður,“ sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna í dag, þar sem hún var gestur.

Þó að kórónuveirufaraldurinn sjálfur sé á hraðri niðurleið á Íslandi, óttast Unnur að nýaukið álag á Vinnumálastofnun vegna afleiðinga hans sé ekki á niðurleið í bili. „En ég er að vona að hápunktinum sé náð,“ sagði hún. 

Fólk ráðið í vinnu við að hjálpa fólki án vinnu

Unnur sagði liggja fyrir ekki allir muni fá greiddar bætur á réttum tíma, enda álagið einfaldlega slíkt. Hún bað fólk að sýna þessu skilning. Mikill fjöldi nýs starfskrafts hefur verið ráðinn til stofnunarinnar, sem Unnur ráðgerir að verði kominn inn í málin innan tveggja til þriggja vikna, og þar með verði þjónustan orðin öllu betri.

„Þetta eru önnur mánaðamótin okkar í þessu ástandi. Vonandi verða ekki miklar tafir hjá okkur í þessu en þær verða einhverjar,“ sagði hún. 

Sökum álagsins við að þjónusta einstaklinga sagði Unnur að beðið hafi verið með endurgreiðslur til fyrirtækja sem þurftu að senda starfsfólk í sóttkví vegna tilmæla yfirvalda. Þær endurgreiðslur hefjast 4. maí. Þá ítrekaði Unnur að fólk sem fékk ekki laun af því að það þurfti að fara í sóttkví á rétt á bótum hjá stofnuninni fyrir þann tíma.

Vongóð um að toppnum sé náð

Unnur sagðist vona að hápunktinum hafi verið náð í álagi hjá Vinnumálastofnun, jafnvel þó að ljóst sé að uppsagnir vofi yfir víðar í samfélaginu. Hún býst við því fólkinu muni ekki fjölga mjög sem þurfi bætur á næstu vikum, heldur verði líklegar breytingar á eðli eða upphæð þeirra bóta sem það þarf. 

„Stór hluti fólksins sem mun þurfa fullar bætur er þegar í þjónustu hjá okkur á hlutabótum og mun þá bara flytjast á milli deilda hjá okkur ef svo fer,“ sagði hún. Á sama tíma muni síðan eitthvað fólk hætta á bótum í byrjun maí þegar losnar um höftin.

Ásamt því að verið sé að útdeila bótum er líka unnið að varanlegum vinnumarkaðsúrræðum, að sögn Unnar. Nú er að störfum starfshópur félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra sem á að bjóða fram lausnir í þeim efnum. Sömuleiðis eru handan við hornið úrræði fyrir námsmenn á milli anna, sem hafa verið sagðir falla á milli skips og bryggju þegar kemur að opinberri aðstoð vegna áhrifa faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert