Fundu ríflega 130 dekk við Vog

Dekkin voru allt í allt um 130 talsins.
Dekkin voru allt í allt um 130 talsins. Ljósmynd/Þórunn Elfa Sæmundsdóttir

Hóp sem plokkaði rusl í gær við Vesturlandsveginn brá heldur betur í brún þegar ein úr hópnum, Halldóra Karls Jennýjardóttir, kom auga á rusl rétt fyrir ofan sjúkrahúsið Vog sem reyndist ekki vera neitt smáræði.

Ruslið, sem fyrst virtist vera venjulegt rusl, var nefnilega alls ríflega 130 dekk sem eru líklega minjar frá mótorkrossbraut sem var á svæðinu fyrir tuttugu árum síðan. 

Hér má sjá hvar dekkjakirkjugarðinn var að finna.
Hér má sjá hvar dekkjakirkjugarðinn var að finna. Ljósmynd/Þórunn Elfa Sæmundsdóttir

„Okkur skilst að fyrir um tuttugu árum síðan hafi verið mótorkrossbraut á þessu svæði. Hún var greinilega bara skilin eftir án þess að frá henni væri gengið,“ segir Þórunn Elfa Sæmundsdóttir, ein úr hópnum. Hún var enn að plokka þegar blaðamaður náði tali af henni rétt fyrir hádegi í dag. 

Þetta duglega tré hefur náð að vaxa inni í dekki.
Þetta duglega tré hefur náð að vaxa inni í dekki. Ljósmynd/Þórunn Elfa Sæmundsdóttir

„Við rýndum aðeins í dekkin því það stendur alltaf á dekkjum hvenær þau eru framleidd en þarna er meira að segja að finna dekk sem eru framleidd hérlendis, af Sólningu og Gúmmívinnustofunni svo þetta eru ansi gömul dekk,“ segir Þórunn.

Halldóra Karls Jennýjardóttir kom auga á smá rusl sem reyndist …
Halldóra Karls Jennýjardóttir kom auga á smá rusl sem reyndist svo vera heill dekkjakirkjugarður. Ljósmynd/Þórunn Elfa Sæmundsdóttir

Hópurinn þurfti að moka 12-14 dekk upp úr gróðri sem kominn var yfir þau en Þórunn segist vona að öll kurl séu nú komin til grafar og að svona frágangur, eða öllu heldur ófrágangur, líðist ekki lengur. 

Ásamt Þórunni plokkuðu áðurnefnd Halldóra, Ægir Þórðarson, Selma Maríusdóttir og fleiri góðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert