Hafnarfjörður býr sig undir sölu í HS Veitum

„HS Veitur er vel rekið fyrirtæki sem lagt hefur áherslu …
„HS Veitur er vel rekið fyrirtæki sem lagt hefur áherslu á tækniþróun og þjónustu,“ segir Rósa. mbl.is/RAX

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum miðvikudaginn 22. apríl að hefja undirbúning að mögulegri sölu á 15,42% hlut sveitarfélagsins í HS Veitum. Bærinn er þriðji stærsti hluthafinn í fyrirtækinu á eftir Reykjanesbæ (50,10%) og HSV eignarhaldsfélagi (34,38%).

Þetta kemur fram í tilkynningu sem bærinn sendir frá sér í dag.

Fyrir liggi að Hafnarfjarðarbær, rétt eins og önnur sveitarfélög landsins, verði fyrir miklum tekjusamdrætti vegna lægri tekna og aukinna útgjalda til að milda áhrif faraldurs kórónuveirunnar. Það bil verði einungis brúað með aðhaldsaðgerðum, lántökum og/eða sölu eigna.

„Í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu teljum við eðlilegt að kannaður sé áhugi fjárfesta á eignarhlut bæjarins í HS  Veitum í opnu ferli. Fáist ásættanlegt kauptilboð í hlutinn þá seljum við hann, ef ekki þá eigum við hlutinn áfram,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar.

Eignarhluturinn hafi engin áhrif á raforkuverð

Starfsemi HS Veitna snýr einkum að þjónustu við sveitarfélög á Suðurnesjum á sviði dreifingar og sölu á heitu vatni, vatnsöflunar, dreifingar og sölu á köldu vatni og dreifingar á rafmagni. Jafnframt starfrækir fyrirtækið varmadælustöð í Vestmannaeyjum og dreifir þar bæði heitu og köldu vatni, auk raforku. Þjónusta HS Veitna við Hafnarfjörð snýr einungis að dreifingu á raforku til íbúa og fyrirtækja í bænum en auk þess dreifa HS Veitur raforku í Árborg og hluta Garðabæjar.

Eignarhlutur bæjarins í HS Veitum er sagður hafa engin áhrif á verð á rafmagni til Hafnfirðinga, þar sem gjöld vegna dreifingar raforku séu bundin ströngum skilyrðum í lögum.

„HS Veitur er vel rekið fyrirtæki sem lagt hefur áherslu á tækniþróun og þjónustu,“ segir Rósa.

„Við teljum fyrirtækið því mjög áhugaverðan kost fyrir langtímafjárfesta sem vilja taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á öflugri veituþjónustu á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert