„Í dag skein sólin inn í galtóma Covid-stofuna á gjörgæslunni við Hringbraut,“ skrifar Tómas Guðbjartsson læknir við færsluna þar sem hann hleður inn myndinni sem má sjá hér að ofan. Þessi sama gjörgæslustofa var full af mjög veiku fólki fyrir þremur vikum.
Aðeins þrír eru á gjörgæslu á Íslandi þessa stundina vegna veirunnar og er þeim sinnt í Fossvogi. Þegar mest lét voru þrettán sjúklingar með Covid-sjúkdóm samtímis á gjörgæslu.
Á sama tíma og þessu ástandi er fagnað, eru íslenskir vísindamenn að gera upp raunverulegan árangur í gjörgæslumeðferðum á Íslandi. Fyrstu niðurstöður eru þær að árangurinn hafi verið betri en vænta mátti, eins og Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga-og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands, greinir mbl.is frá. Hann er ábyrgðaraðili að vísindagrein sem lýsir fyrstu niðurstöðum af árangri gjörgæslumeðferðar við Covid-19 á Íslandi, sem hópur gjörgæslulækna á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri hefur sent frá sér til birtingar í tímariti.
Tölfræðin er á heimsmælikvarða. Fjórir hafa látist eftir gjörgæslumeðferð hér á landi af samtals 27 sem hafa þurft á henni að halda. Það þýðir að tæp 15% þeirra sem hafa lagst inn á gjörgæslu hafa látist. Í upphafi faraldursins var allt að 50-90% dánarhlutfalli lýst á Ítalíu, í Kína og á Bretlandi.
Hlutfall þeirra Covid-sjúklinga sem hafa þurft gjörgæslumeðferð á Íslandi er sömuleiðis um 1,5% af greindum smitum, sem er mun lægra en í þessum samanburðarlöndum en í upphafi faraldursins var talað um að 5-10% smitaðra veiktust svo alvarlega að þeir þyrftu gjörgæslumeðferð.
Martin segir að líklega sé markverðasta niðurstaða samantektarinnar lágt hlutfall þeirra sem yfirleitt hafa þurft gjörgæslumeðferð, þ.e. að um 1,5% smitaðra hafi þurft gjörgæslumeðferð.
Martin segir að hér tvennt komi til. „Við höfum auðvitað getað prófað tiltölulega marga fyrir veirunni, svo að við vitum um smit hjá mun fleiri með vægari einkenni. Þetta lækkar í stóra samhenginu hlutfall þeirra sem hafa veikst alvarlega,“ segir hann og bendir á að aðrar þjóðir hafi sumar fyrst og fremst getað greint sjúkdóminn hjá þeim sem veikjast alvarlega, einstaklingum með vægari einkenni hafi ekki staðið til boða að fá greiningarpróf.
„Á sama tíma held ég að Covid-göngudeildin sem hefur fylgt sjúklingum eftir heima hafi skilað miklum árangri. Göngudeildin hefur tryggt góða yfirsýn og eftirlit með sjúklingum í heimahúsi. Þeir hafa svo kallað til sín fólk sem lýsir versnandi líðan og einkennum og veitt meðferð á göngudeildinni. Frá göngudeildinni hafa svo sjúklingar verið lagðir inn á sjúkrahúsið ef þeir þarfnast frekari mats og meðferðar, í samræmi við verkferla sem settir voru upp í aðdraganda faraldursins,“ segir Martin.
Eftirlitið af hálfu göngudeildarinnar hefur á sama hátt líklega skipt sköpum fyrir hið lága 15% dánarhlutfall meðal gjörgæslusjúklinga, að mati Martins, ásamt samhæfðu viðbragði sjúkrahússins.
„Eftirlitið tryggir að sjúklingar sem hefur versnað séu metnir hratt og örugglega og eiga greiða leið inn á sjúkrahúsið. Við á gjörgæslunni höfum verið í nánu sambandi við lækna og hjúkrunarfræðinga legudeildanna og byrjað að fylgjast með sjúklingum sem við teljum að þurfi mögulega gjörgæsluinnlögn snemma. Á þennan hátt hefur tekist að koma í veg fyrir að það verði töf á því að sjúklingar sem verða veikastir og þarfnast gjörgæslumeðferðar fái hana. Við höfum því ekki séð þessa stóru ganga af illa höldnum sjúklingum sem bíða meðferðar eins og sést hafa á sumum stöðum erlendis.“
Tíu hafa látist á Íslandi af völdum kórónuveirunnar og þar af rötuðu fjórir á gjörgæslu. Hinir sex fóru ekki á gjörgæslu af ólíkum ástæðum, en í hvert skipti sem gjörgæslumeðferð er ígrunduð þarf að meta alvarleika veikinda og undirliggjandi heilsufar sjúklingsins. Í sumum alvarlegum tilvikum er ástand sjúklinga metið þannig að útilokað sé að gjörgæslumeðferð muni bera árangur, eða að sjúklingur og ættingjar afþakki hana eftir upplýst samtal. Í öðrum tilvikum hefur innlögn ekki náðst í tæka tíð, eins og gerðist líklega í tilfelli ástralska ferðamannsins sem lést á Húsavík.
Gjörgæslumeðferð í öndunarvél er þung meðferð sem tekur verulega á sjúklinginn, sérstaklega þá sem eru aldraðir eða mjög veikir fyrir. Alls hafa 16 af sjúklingunum sem þörfnuðust gjörgæslumeðferðar verið meðhöndlaðir í öndunarvél. Af þeim hafa tólf komist af öndunarvél, þrír látist en einn er enn í vél.
Öndunarvélarmeðferð vegna Covid-19 er erfið meðferð sem sem varir oftast í 10-12 daga og krefst margþættrar lyfjameðferðar, þar á meðal þungrar svæfingar. Eftir því sem hefur liðið á faraldurinn hefur margvíslegum ráðum verið beitt til að reyna að fækka þeim sjúklingum sem þarfnast öndunarvélarmeðferðar, meðal annars vakandi grúfulegu, að sögn Martins. Þá er sjúklingur er lagður á magann til þess að nýta lungun betur. Þessi meðferð er oft beitt samhliða hefðbundinni öndunarvélarmeðferð en er nú nýtt til að reyna að forða sjúklingum frá öndunarvélarmeðferðinni.
Öll gjörgæsluvinna við umönnun sjúklinga smitaðra af kórónaveirunni er síðan miklu umfangsmeiri en þeirra sem eru ekki sýktir, því ýtrustu sóttvarnareglum þarf að fylgja til að koma í veg fyrir smit starfsmanna. Fyrir kórónuveirufaraldurinn voru 16 gjörgæslupláss á Íslandi, sjö á Hringbraut, sex í Fossvogi og þrjú á Akureyri. Að sögn Martins gerði Landspítalinn margþættar ráðstafanir til þess að fjölga þessum plássum í allt að 30-50 ef allra svartsýnustu spá hefðu ræst.
Til að sinna öllum þessum fjölda til að mynda margir hjúkrunarfræðingar með fyrri reynslu af gjörgæsluvinnu sig aftur á gjörgæsluna af öðrum deildum sjúkrahússins, svo sem svæfingadeild og skurðdeild. Einnig naut gjörgæslan liðsinnis stórs hóps hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraliða úr bakvarðasveitinni.