Lét rífa þakið af húsinu

Svanur Jóhannesson lætur aldurinn ekki stöðva sig en hann er …
Svanur Jóhannesson lætur aldurinn ekki stöðva sig en hann er níræður.

„Það hefði örugglega ekki tekið ungan og frískan mann fimm ár að skrifa þessa bók, maður er lengur að hlutunum kominn á þennan aldur en það var afskaplega gaman að gera þetta,“ segir Svanur Jóhannesson, níræður bókbindari, sem sendir á næstunni frá sér Prentsmiðjubókina, sögu prentsmiðja á Íslandi frá árinu 1530.

Velta má fyrir sér á móti hvort ungur og sprækur maður hefði verið þess umkominn að ná utan um allar þessar heimildir. „Það veit ég auðvitað ekki en hitt er ljóst að það hlýtur að vera fengur í því að þessi saga sé nú til á einum stað.“

Alls er getið um 395 prentsmiðjur á Íslandi í bókinni en Svanur tók þann pól í hæðina að halda sig við nöfn prentsmiðjanna sem gefið hafa út bækur eða blöð en ekki tilteknar prentvélar sem gjarnan gengu kaupum og sölum. „Þetta er á köflum þvælin saga og miklu fleiri prentsmiðjur en mig hafði órað fyrir.“

Fór nokkra hringi

– Hvernig kom það til að þú byrjaðir á þessari vinnu?

„Þetta var í raun rökrétt framhald af vinnunni við fyrri bók mína, Prentsmiðjueintök. Við Þorsteinn Jakobsson, prentari í Reykjavík, höfum verið að safna eintökum úr prentsmiðjum á síðustu árum; svokölluðum prentsmiðjueintökum, svo við notum orð sem Stefán Ögmundsson prentari bjó til. Í upphafi stóð til að gera þetta fyrir Félag bókagerðarmanna en af því varð ekki og það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að við Þorsteinn helltum okkur út í þetta af fullum krafti. Hann hefur verið betri en enginn við þessa vinnu, eins Rúnar Sigurður Birgisson, fornbókasali í Kolaportinu og bankastjóri Bókabankans, sem lumaði á mörgum dýrgripnum í safni sínu, sérstaklega gömlum blöðum, og Ragnar Guðmundsson bókasafnari, sem nú er látinn, en hann lagði líka til mörg góð eintök. Kann ég þeim að vonum bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Við komumst fljótt að því að fjölmargir prentstaðir stóðu út af en í fyrri bókinni er aðeins getið um 130. Margir þeirra voru einkum og sér í lagi stofnaðir til að gefa út blöð vítt og breitt um landið. Segja má að ég hafi farið nokkra hringi um landið til að safna þessu saman.“

Svanur rifjar upp skemmtilegar sögur í viðtalinu, svo sem af Hilmi Axelssyni, syni Axels Kristjánssonar í Rafha. „Hann rak prentsmiðjuna Hilmi og gaf á tímabili út Vikuna og seldi grimmt. Steindórsprent prentaði upphaflega fyrir hann en Hilmir vildi eignast prentvél sjálfur til að hafa örugga prentun og geta prentað tímaritið í tuttugu þúsund eintökum. Honum bauðst að kaupa prentvél af Herbertsprenti en vandamálið var að taka þurfti vélina í sundur til að koma henni út úr húsinu og setja hana saman aftur á nýjum stað. Hilmir, sem var áhlaupamaður, mátti ekkert vera að því að bíða eftir því og fékk því leyfi til að rífa þakið af húsinu og flytja prentvélina þannig í heilu lagi með krana sem hann leigði hjá Eimskip. Þetta kallar maður að hugsa í lausnum.“

Þorsteinn Jakobsson, prentari og bókasafnari.
Þorsteinn Jakobsson, prentari og bókasafnari. Kristinn Ingvarsson


Með eljuna að vopni

  „Þetta verkefni gaf mér ofboðslega orku og setti mig í allt aðrar stellingar en bókasöfnunin sem ég hef stundað í meira en fjörutíu ár. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins eljumanni og Svani Jóhannessyni. Hann gefst aldrei upp, heldur klárar allt sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Þorsteinn Jakobsson, prentari og bókasafnari í Reykjavík, sem var Svani innan handar við að finna eintök frá prentsmiðjunum sem um er fjallað í nýju bókinni.

Þorsteinn hvetur yfirvöld menningarmála í þessu landi til að gefa ritinu gaum. „Eigi einhver skilið að fá viðurkenningu fyrir elju og vandað starf þá er það Svanur Jóhannesson.“

Nánar er rætt við Svan og Þorstein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.   

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert