Þórólfur ætlar ekki til útlanda í ár

Sóttvarnalæknir kveðst ekki munu skipuleggja utanlandsferðir þetta árið vegna óvissunnar …
Sóttvarnalæknir kveðst ekki munu skipuleggja utanlandsferðir þetta árið vegna óvissunnar af völdum kórónuveirufaraldursins. Heima á Íslandi eru samkomutakmarkanir þó að verða minna íþyngjandi og Þórólfur segir að hann leggi til að á milli 18-25. maí verði bannið miðað við 100 manns, en ekki 50. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir kórónuveirufaraldurinn „kominn vel niður“ og sér fram á að örfá smit verði að greinast á næstu dögum.

Þann 4. maí verður samkomutakmörkum á Íslandi aflétt, þannig að samkomubann mun miðast við 50 manns í stað 20, og ýmsa þjónustu má veita á nýjan leik. Þórólfur segir að 2-3 vikum seinna geri hann ráð fyrir að takmarkið verði aftur víkkað út og þá í 100 manns, jafnvel mögulega fleiri. Eftir hverja afléttingu þurfi að bíða í að minnsta kosti tvær vikur svo að hægt sé að meta áhrif hennar, áður en ráðist er í þá næstu.

Þórólflur segir enn enga leið að áætla hvenær Íslendingar geti farið að fara til útlanda á nýjan leik. „Sjálfur ætla ég ekki að skipuleggja neinar utanlandsferðir í ár,“ sagði hann á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Ferðalög liggja enn niðri víða um heim og nú liggur fyrir að allir sem komi til Íslands þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví og gildir það fram að 15. maí, að minnsta kosti.

Aðeins tvö smit greindust á síðasta sólarhring, bæði á veirufræðideild Landspítalans. Tekin sýni voru 381 – „Dágott magn sýna, þannig að þetta er bara ánægjulegt,“ sagði Þórólfur. 

Þórólfur sagði faraldurinn þá hafa náð minni útbreiðslu en óttast mátti í upphafi, og að það megi þakka samtakamætti Íslendinga, sem fóru eftir tilmælum yfirvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert