65% hafa greitt atkvæði um verkfall

Á fjórða tímanum höfðu um 65% félagsmanna Eflingar í Hvera­gerði, …
Á fjórða tímanum höfðu um 65% félagsmanna Eflingar í Hvera­gerði, Kópa­vogi, Mos­fells­bæ, Seltjarn­ar­nesi og Ölfusi greitt atkvæði um vinnustöðvun að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar. mbl.is/Hari

At­kvæðagreiðsla um vinnu­stöðvun um 300 fé­lags­manna Efl­ing­ar, sem starfa í Hvera­gerði, Kópa­vogi, Mos­fells­bæ, Seltjarn­ar­nesi og Ölfusi, lýkur klukkan 16 í dag en hún hófst á miðvikudag. Nú á fjórða tímanum höfðu um 65% félagsmanna greitt atkvæði að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar. 

Verkfalli félagsmanna Eflinga í fyrrnefndum sveitarfélögum var frestað 25. mars vegna út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Verði vinnu­stöðvun­in samþykkt hefst verk­fall 5. maí, degi eft­ir að tak­mark­an­ir vegna sam­komu­banns verða mildaðar.  

Sól­veig Anna tel­ur það mjög lík­legt að verk­falls­boðunin verði samþykkt og sagði hún í samtali við mbl.is fyrir helgi að krafa Efl­ing­ar sé hófstillt og hafi nú þegar verið samþykkt af Reykja­vík­ur­borg og rík­inu. Þá hafi það ekki áhrif á aðgerðir Eflingar að rúmlega fimmtíu þúsund manns eru á at­vinnu­leys­is­skrá að fullu eða hluta sökum efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Niðurstöður atkvæðagreiðslurnar eiga að liggja fyrir fljótlega eftir að atkvæðagreiðslu lýkur að sögn Sólveigar Önnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert