Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun um 300 félagsmanna Eflingar, sem starfa í Hveragerði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Ölfusi, lýkur klukkan 16 í dag en hún hófst á miðvikudag. Nú á fjórða tímanum höfðu um 65% félagsmanna greitt atkvæði að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar.
Verkfalli félagsmanna Eflinga í fyrrnefndum sveitarfélögum var frestað 25. mars vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Verði vinnustöðvunin samþykkt hefst verkfall 5. maí, degi eftir að takmarkanir vegna samkomubanns verða mildaðar.
Sólveig Anna telur það mjög líklegt að verkfallsboðunin verði samþykkt og sagði hún í samtali við mbl.is fyrir helgi að krafa Eflingar sé hófstillt og hafi nú þegar verið samþykkt af Reykjavíkurborg og ríkinu. Þá hafi það ekki áhrif á aðgerðir Eflingar að rúmlega fimmtíu þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá að fullu eða hluta sökum efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Niðurstöður atkvæðagreiðslurnar eiga að liggja fyrir fljótlega eftir að atkvæðagreiðslu lýkur að sögn Sólveigar Önnu.