Dauðfeginn að handbókin sé á íslensku í ár

Stemningin í þjóðfélaginu er öll á þá leið að menn …
Stemningin í þjóðfélaginu er öll á þá leið að menn ætli að ferðast um landið í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk vegahandbók! Hvenær ef ekki nú?

Vegahandbókaútgefandinn Hálfdán Örlygsson er dauðfeginn að í ár sé komið að útgáfu íslensku gerðarinnar, sem venjulega skiptist á við þá ensku við að koma út árlega. Í fyrra kom út sú enska „sem var lán í óláni, því nú hefðum við getað sleppt því að gefa hana út,“ segir Hálfdán við mbl.is.

Það smellpassar að í ár sé sú íslenska að koma út, enda stemningin í þjóðfélaginu öll á þá leið að menn ætli að ferðast um landið í sumar. Viðkvæðið um að ferðast innanhúss útvíkkað í að ferðast innanlands, og þá er ekki verra að hafa nýuppfærðan leiðarvísi um landið.

Hálfdán Örlygsson, útgefandi Vegahandbókarinnar. Þessi sígílda bók á sumarferðum hefur …
Hálfdán Örlygsson, útgefandi Vegahandbókarinnar. Þessi sígílda bók á sumarferðum hefur komið út frá árinu 1973 og sem betur fer er 20. útgáfan af þessari biblíu þeirra sem um landið aka á íslensku. mbl.is/Sigurður Bogi

Hálfdán segir að ef ekki væri fyrir íslensku bókina, væri allt hjá honum hrunið. Ef starfsemin stendur á fjórum fótum er einn þeirra íslenska bókin, annar sú enska, þriðji hinn svonefndi Visitor's Guide og sá fjórði kortagerð fyrir ferðaskrifstofur og almennan markað.

„Það er eins gott að sú íslenska sé í ár, því hún er eini fóturinn hjá mér sem virkar almennilega þetta árið,“ segir Hálfdán. 

Hætt við útgáfu vinsæls leiðarvísis

Staðan er eftir sem áður ansi svört; útgefendur ferðabóka eru í sömu stöðu og hótelrekendur. Hálfdán hefur verið að gefa út nefndan Visitor's Guide, sem er ferðahandbók fyrir erlenda ferðamenn prentaður í 130.000 eintökum á ári, sem er gefinn ferðamönnum á hótelum, gistiheimilum, upplýsingamiðstöðvum og ferðaskrifstofum í Reykjavík.

„Auglýsingatekjur hafa haldið þessari útgáfu uppi, sem hefur notið rosalegra vinsælda og við höfum varla haft við að bera þetta út úr húsi þegar þetta er til. Við vorum langt komin með að selja auglýsingar inn í bókina og breyta bókinni og bæta en þurftum síðan bara að hætta við þetta allt,“ segir Hálfdán, enda lítið vit í að gefa þetta út þegar fyrir liggur að mjög lítið verði um ferðamenn á Íslandi í ár. 

Það sem þú kannt að ná að selja nú, selurðu ekki aftur síðar

Annar mikilvægur þáttur í rekstrinum hjá Hálfdáni hafa verið Íslandskort sem hann hefur selt ferðaskrifstofum í stórum stíl. Lukkulega hafði hann þegar komið kortum þessa árs út til aðilanna, en þó fylgir sá böggull skammrifi að þá eiga þeir nóg þegar hjólin fara aftur að snúast.

Nýja kápan. Í bókinni er fróðleikur um alls 3.000 staði …
Nýja kápan. Í bókinni er fróðleikur um alls 3.000 staði á landinu og það má einnig nálgast upplýsingar á appi tengdu bókinni. Skjáskot

„Á næsta ári eiga þeir þá birgðirnar og við erum þá ekki að fara að selja þeim kort þá, þ.e.a.s. ef ferðamenn verða yfirleitt komnir til landsins. Þetta er því gífurlegt högg fyrir okkur, bæði núna og til framtíðar,“ segir Hálfdán. 

Hann bindur um sinn vonir við íslensku vegahandbókina, sem kemur í búðir í byrjun júní. „Það eru sem betur fer margir sem vilja ekki fara út á land nema hafa bókina með, enda spurning hvers virði landslag og staðir eru ef þú hefur ekki samhengið og söguna með. Hana færðu í bókinni,“ segir Hálfdán en hún vísar til vegar í máli, myndum og með kortum. Gildir þá einu hvort staðirnir koma fyrir í fornsögum, þjóðsögum eða sögu síðustu áratuga, sagan er rakin og sérkennum lýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert