Eigendur Brúar á Jökuldal hafa höfðað dómsmál á hendur íslenska ríkinu, til ógildingar ákvörðun um friðlýsingu á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, staðfesti friðlýsingu á svæðinu í ágúst á síðasta ári vegna orkuframleiðslu umfram 10 MW að uppsettu afli. Friðlýsingin nær til stórs hluta jarðarinnar sem liggur að Jökulsá á Fjöllum og Kreppu.
Málshöfðunin varðar einnig þá varakröfu að ríkið beri bótaábyrgð á skerðingu eignaréttinda sem hlýst af friðlýsingu lands og vatnsréttinda. Þetta kemur fram í bréfi lögmanns stefnenda, Jóns Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Þar segir jafnframt að með þessu séu rannsóknir og orkuframleiðsla á svæðinu til framtíðar útilokuð.
Helstu rök fyrir ógildingu friðlýsingar eru meðal annars að ákvörðun ráðherra hafi verið í ósamræmi við lög og lögbundnar kröfur um málsmeðferð vegna friðlýsingar landsvæða fyrir orkuvinnslu. Ekki hafi verið lagt mat á eignaréttarlega hagsmuni við ákvarðanatöku um friðlýsinguna í andstöðu við ákvæði í stjórnarskrá og náttúruverndarlögum. Þá hafi ráðherra og undirmenn hans verið vanhæfir við málsmeðferð og ákvörðun um friðlýsinguna. Einkum vegna tengsla ráðherra við Landvernd og fyrri yfirlýsinga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og um meinta þýðingu þingsályktunar um rammaáætlun að heimila friðlýsingu heilla vatnasviða.