Köttur olli slysi

Köttur hljóp fyrir hjólreiðamann í gærkvöldi með þeim afleiðingum að …
Köttur hljóp fyrir hjólreiðamann í gærkvöldi með þeim afleiðingum að hann datt af hjólinu og slasaðist. Mynd úr safni mbl.is. mbl.is/RAX

Flytja þurfti hjólreiðamann á bráðadeild Landspítalans eftir að köttur hljóp í veg fyrir hann í Austurbænum á ellefta tímanum í gærkvöldi. 12 ára gamall drengur var einnig fluttur á bráðamóttökuna eftir að ekið var hann í Garðabænum í gær.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar datt maðurinn af hjólinu eftir að köttur hljóp í veg fyrir hjólið í hverfi 108. Maðurinn var illa áttaður eftir óhappið og kvartaði um verk í öxl og brjóstkassa. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðadeild.

Á sjöunda tímanum í gær var tilkynnt um umferðarslys í Garðabænum en þar var ekið á 12 ára gamlan dreng og samkvæmt dagbók lögreglunnar er ekki ljóst hvort hann var á hjóli sínu þegar slysið varð. Drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild líklega fótbrotinn segir í dagbók lögreglunnar.

Lögreglan stöðvaði för bifhjóls á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg klukkan 21 eftir hraðamælingu sem sýndi 164 km/klst. en leyfður hámarkshraði er  80 km/klst. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum til  bráðabirgða.

Um miðnætti stöðvaði lögreglan för ökumanns í Vogahverfi sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Síðdegis var annar ökumaður stöðvaður í Vesturbænum grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og á tíunda tímanum var bifreið stöðvuð í hverfi 108 þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda og þjófnað.  

Um klukkan 22 í gærkvöldi var ökumaður, sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, stöðvaður í Árbænum. Bifreiðin var ótryggð og skráningarnúmer klippt af.

Síðdegis í gær var síðan próflaus ökumaður stöðvaður í hverfi 108 og í gærkvöldi voru höfð afskipti af manni vegna vörslu fíkniefna í hverfi 105 (Austurbænum). Á sjötta tímanum var síðan tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um þjófnað á tveimur reiðhjólum úr læstri hjólageymslu fjölbýlishúss í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert