Lokun spilakassa hafi þegar haft jákvæð áhrif

Samtökin óska eftir viðræðum við stjórnvöld um hvaða fyrirkomulag megi …
Samtökin óska eftir viðræðum við stjórnvöld um hvaða fyrirkomulag megi hafa og hvaða reglum beri að hlíta fari svo að banni á spilakassa verði aflétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farsælast væri að opna hvorki fyrir spilun í einstökum spilakössum né í spilasölum fyrr en búið er að gera viðeigandi breytingar á aðgengi og takmörkunum hvað varðar upphæðir og tíma sem hægt er að eyða í spilakassa.

Þetta kemur fram í bréfi sem Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa sent forsætisráðherra.

Tekin var ákvörðun um að loka spilasölum og spilakössum 20. mars vegna smithættu af völdum kórónuveirufaraldursins, en samtökin segjast hafa bæði fengið ábendingar frá spilafíklum og atvinnurekendum, sem staðhæfi að lokun spilakassanna hafi þegar haft merkjanleg jákvæð áhrif.

„Spilafíklar hafa sagt að lokunin sé þeim sem frelsun og atvinnurekendur, sem hafa í sinni vinnu einstaklinga sem eiga við spilafíkn að stríða, segja að lokunin hafi í för með sér bætta líðan, minni fjarveru og fyrir vikið bættan starfsanda. Þá hafa aðstandendur spilafíkla sagt að innan veggja heimilis hafi lokunin haft mjög jákvæð áhrif og hafa fjármunir verið að skila sér í heimilisrekstur og grunnþarfir svo sem greiðslur á húsnæði og matarinnkaup,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Á tímum þrenginga og angistar margra þurfi, að mati samtakanna, að hyggja sérstaklega að þessum þætti lýðheilsunnar, andlegri líðan fólks og fjárhagslegum afleiðingum. Því væri farsælast að opna hvorki fyrir spilun í einstökum spilakössum né í spilasölum fyrr en búið er að gera viðeigandi breytingar á aðgengi og takmörkunum hvað varðar upphæðir og tíma sem hægt er að eyða í spilakassa.

„Samtökin óska því strax eftir viðræðum við stjórnvöld um hvaða fyrirkomulag megi hafa og hvaða reglum beri að hlíta fari svo að banni á spilakassa verði aflétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert